150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum og fleiri lögum. Hér er um að ræða frumvarp þar sem lagt er til að embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra sameinist og að verkefni á sviði embættanna verði starfrækt í einni stofnun sem nefnist Skatturinn og ríkisskattstjóri veiti forstöðu. Embætti tollstjóra verði þannig lagt niður í núverandi mynd en verkefnum á sviði tollgæslu skipaður sérstakur sess í hinu sameinaða embætti undir stjórn tollgæslustjóra sem heyri undir ríkisskattstjóra.

Hér er sem sagt verið að fækka ríkisstofnunum um eina og tilgangurinn er að auka skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda sem kann að hafa ýmislegt hagræði í för með sér. Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að mikil samlegðaráhrif og hagræði geti hlotist af fullri sameiningu ríkisskattstjóra og tollstjóra, ekki síst í ljósi örra tækniframfara og aukinnar sjálfvirknivæðingar. Í þeim umsögnum sem nefndinni bárust um málið er lýst stuðningi við framgang frumvarpsins.

Eins og venjulegt er getur verið flókið að sameina stórar stofnanir og því hvetur meiri hlutinn til þess að vandað verði til verka við sameininguna og dreginn lærdómur af öðrum viðlíka sameiningum eftir því sem við á. Sérstaklega verði hugað að virðingu og skilningi í garð starfsfólks embættanna. Þá bendir meiri hlutinn á að við sameiningu af þessu tagi verði óhjákvæmilega ákveðinn upphafskostnaður þannig að hugað verði að því þegar sameiningin fer af stað að tryggt sé fjármagn fyrir þeim kostnaði svo að hagræðingin náist með sameiningunni og að sameiningin gangi þokkalega snurðulaust fyrir sig.

Meiri hlutinn leggur til ákveðnar breytingar sem koma fram í nefndarálitinu og ég mun ekki rekja hér. Að framansögðu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir álitið rita Óli Björn Kárason formaður, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Víglundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson og Smári McCarthy.