150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

fjárframlög til héraðssaksóknara og ríkislögmanns.

[15:33]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Þetta er ekkert misræmi, það liggur algjörlega kýrskýrt fyrir hvaða fjárveitingar þurfti vegna þeirrar þjónustu sem var búið að nýta varðandi Landsréttarmálið. Sú upphæð lá fyrir og það var mjög eðlilegt að hún kæmi inn í þingið.

Varðandi héraðssaksóknara hef ég átt fund með honum og það er unnið að því hverjar þessar fjárheimildir eru og hversu mikið þurfi vegna aukins álags, hve lengi o.s.frv. Það þarf að liggja skýrt fyrir en það lá ekki skýrt fyrir við umræðu um fjárlagafrumvarpið.

Varðandi annað misræmi sem hv. þingmaður vísar til er mér ljúft og skylt að leiðrétta það sem hann kallar misskilning af minni hálfu eða að ég hafi farið í andsvör við sjálfa mig um peningaþvættistilskipunina og niðurstöðu FATF. Ég tel Ísland enn ekki eiga heima á þessum gráa lista þó að þau telji örfá atriði standa út af. Öll þau þrjú atriði sem þar standa út af eru komin í farveg. Þó að ég vari við óhóflegri bjartsýni er það bara vegna þess að við höfum séð að það þarf að ljúka þeim með fullnægjandi hætti, þ.e. innleiðing þarf að klárast. Ekki er nóg að kaupa kerfið, til að mynda eins og þegar rætt er um lögreglukerfið töldum við að það væri nóg, enda var öll málsmeðferð FATF frekar óskýr. Ég vara við óhóflegri bjartsýni vegna þess að ég veit að það kerfi getur ekki verið tilbúið fyrr en í apríl og því óþarfi að halda öðru fram.