150. löggjafarþing — 41. fundur,  9. des. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:37]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Við erum komin í 3. umr. um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2020. Í ræðu minni við 2. umr. rakti ég hér nokkra liði sem mér finnst skipta máli í þessu. Ég ætla aðeins að halda áfram þar sem frá var horfið, ég náði ekki að ljúka því. Ég vil byrja á því að fagna, eins og sá sem stóð hér á undan mér í ræðustól, hv. þm. Þorsteinn Víglundsson, breytingartillögu í þá veru að greiða öryrkjum desemberuppbót. Hún skiptir marga verulegu máli og ánægjulegt að ríkisstjórnin skyldi hafa hlustað á þær raddir.

Ég vil einnig koma inn á það sem var nefnt hér áðan, þ.e. það frumkvæði sem ríkissjóður eða ríkisstjórnin sýnir í hverjum fjárlögum og í breytingum á ýmsum lögum vegna fjárlaga og gengur fram fyrir skjöldu með það að hækka ýmis gjöld á vegum hins opinbera. Það verður til þess að hækka vísitölu neysluverðs, hækka lán landsmanna og auka verðbólgu. En nú hefur ríkisstjórnin tekið það sérstaklega fram að hún sé ekki að hækka þau til jafns við verðbólgu og hefur verið að hrósa sér fyrir það eins og var nefnt hér, en ég tel að það sé brýnt að menn íhugi alvarlega hvort það þurfi alltaf að vera fastur liður um hver einustu áramót að hér séu ýmis gjöld ríkissjóðs hækkuð. Nær væri að fara hagræðingarleið í ríkisfjármálum eins og við í Miðflokknum nefndum og fluttum breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið um sérstaka hagræðingarkröfu upp á 1,1 milljarð á öll ráðuneyti. Ríkisbáknið hefur blásið út í tíð þessarar ríkisstjórnar og er hvergi dregið úr í þeim efnum og full þörf fyrir að fara að hagræða hjá hinu opinbera. Væri það gert væri ekki þörf fyrir það að ríkisvaldið væri að ganga fram fyrir skjöldu með að hækka ýmis gjöld sem síðan stuðla að hækkun vísitölu, eins og ég nefndi, og hærri verðbólgu.

Í þessu frumvarpi eru að sjálfsögðu mikilvægar forsendur fjárlaga og það er tilgangur þess. Það skýtur hins vegar svolítið skökku við að mínum dómi að samþykkja fyrst fjárlög og fara síðan tveimur vikum síðar eða svo að samþykkja forsendur fjárlaga. Maður hefði haldið að fyrst ætti að samþykkja forsendurnar og niðurstaðan úr þeirri vinnu kæmi síðan fram í fjárlögum. Það má segja að þetta sé óheppilegt fyrirkomulag, að samþykkja fyrst fjárlög og síðan forsendurnar á eftir. Tökum sem dæmi ef gerðar yrðu breytingar í bandormi sem stönguðust á við fjárlög sem búið er að samþykkja, þá er komin upp staða sem enginn vill vera í og er umhugsunarefni.

Ég nefndi það að ég fagnaði því að það á að greiða öryrkjum desemberuppbót samkvæmt breytingartillögu sem fylgir þessu frumvarpi en spurning hvort það hafi verið tæknilega rétt að gera þetta með þeim hætti í þessu frumvarpi, hvort þetta hefði ekki átt að liggja fyrir í fjárlögum.

Á bls. 8 er atriði sem ég tók eftir sem er kannski rétt að minnast á í þessu sambandi, það varðar álagningu og innheimtu. Hér segir:

„Tollyfirvöld annast álagningu samkvæmt þessum kafla. Skattur, sem lagður er á samkvæmt þessum kafla, myndar stofn til virðisaukaskatts. Ríkisskattstjóri annast innheimtu samkvæmt þessum kafla.“

Nú á að fara að sameina þessi embætti þannig að þarna er kannski kominn sami aðilinn sem á að leggja á og innheimta, sem er kannski umhugsunarvert. (Gripið fram í: Það er í öðru frumvarpi.) — Í öðru frumvarpi, hv. þingmaður, það er rétt.

Það sem ég vildi einnig koma inn á í þessu sambandi var að við 2. umr. ræddi framsögumaður svolítið um urðunarskattinn sem ríkisstjórnin áformaði að leggja á en varð síðan að draga í land með vegna þess að málið var mjög illa undirbúið. Það er staðreynd sem blasir við öllum. Þessi skattur verður lagður á ef þessi ríkisstjórn hefur umboð til þess og urðunarskatturinn, þegar hann er kominn að fullu til framkvæmda, mun kosta hvert heimili u.þ.b. 12.000 kr. á ári. Þá komum við að því sem hefur verið bent á og við í Miðflokknum höfum bent réttilega á, að ríkisstjórnin hrósar sér fyrir það að vera að lækka skatta. Nú tek ég það fram að við í Miðflokknum erum að sjálfsögðu hlynnt skattalækkunum en ekki þeirri aðferðafræði sem viðhöfð var í þessu tilviki. Það er verið að lækka skatta en á móti hækka ýmis gjöld. Þar með dregur úr nettólækkun skatta, nettólækkun tekjuskatts. Ég hef óskað eftir því innan nefndarinnar að gert yrði minnisblað um hver sé hin raunverulega nettóskattalækkun sem almenningur fær við þessa skattkerfisbreytingu. Ég hef ekki fengið þær upplýsingar enn en ég er ansi hræddur um að hún sé mun minni en stjórnvöld vilja láta í veðri vaka, einmitt vegna þess að verið er að hækka margvísleg gjöld á móti. Það er verið að hækka kolefnisgjaldið, svo að dæmi sé tekið, sem hækkar verð á bensíni og dísilolíu á bifreiðar og það er verið að hækka bifreiðagjaldið og ýmis önnur gjöld sem snúa beint að heimilunum. Það dregur úr þessari skattalækkun. Þetta er aðferðafræði sem mér hugnast ekki, herra forseti. Almenningur á að fá að vita nákvæmlega hver nettóskattalækkunin er þegar tekið er tillit til gjaldahækkana eins og koma fram í þessu frumvarpi og verða um áramótin.

Það er líka umhugsunarefni, eins og komið hefur fram, að það skuli vera hægt að ganga fram fyrir skjöldu með það að boða nýjan skatt eins og urðunarskatt með svo skömmum fyrirvara og svo illa undirbúinn að ríkisstjórnin er gerð afturreka með þau áform. Varðandi urðunarskattinn gagnrýndu fyrirtæki á borð við Sorpu og einnig sveitarfélögin samráðsleysið sem var í því máli og Sorpa telur augljóst að tilgangur hugmynda um þennan skatt sé ekki verndun umhverfisins eða aukning í endurvinnslu og endurnotkun og tilgangurinn virðist heldur ekki vera að minnka úrgang því að urðunarskattur sé ófullnægjandi stjórntæki til þess. Þeir leggja það út hjá Sorpu að bein útgjaldaaukning á íbúa á þeirra starfssvæði sé talin nema um allt að 800 millj. kr. á ári og þeir leggja það mat á að ekki sé hægt að tengja þann kostnað við það sem hver íbúi láti til urðunar heldur verði að innheimta gjaldið sem aukagjald á hvern íbúa. Eins eru þetta álögur á atvinnulífið og það mun þurfa að greiða um 1,6 milljarða kr. og að einhverju leyti mun sá skattur greiðast úr vasa íbúa.

Það er til skynsamleg leið til að ná þessum markmiðum. Bent hefur verið á að hægt sé að minnka það sem fer til urðunar, t.d. með því að setja skilagjald á vöruflokka sem við viljum ekki að fari til urðunar. Ég nefni plast sem dæmi. Höfum hugfast að 1 kíló af sorpi sem fer til urðunar er ekkert betra í jörðu komið þó að það sé með urðunarskatti. Það er mikilvægt að hafa það í huga.

Ég kom einnig inn á Framkvæmdasjóð aldraðra fyrr í umræðunni. Hér kemur fram að bráðabirgðaheimildin til að greiða rekstrarkostnað hjúkrunarheimila úr Framkvæmdasjóði aldraðra er framlengd. Það var aldrei hlutverk sjóðsins að annast rekstur og við vitum vel að sjóðnum hefur ekki gengið vel að fjármagna nauðsynlega uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila eins og honum er ætlað og eru framlög til hans mun lægri en sem nemur sívaxandi þörf fyrir slíkt húsnæði. Hér er sem sagt verið að framlengja þessa heimild enn eina ferðina og þarf að finna leiðir til þess að sjóðurinn standi undir því hlutverki sem honum var ætlað og nafn sjóðsins gefur til kynna, hann er framkvæmdasjóður. Það er afar mikilvægt og þörfin er brýn í þessum málaflokki. Því miður hefur það fjármagn ekki verið nýtt sem skyldi sem var ætlað til að mæta ákveðnum vanda í þessum efnum. Fjárlaganefnd samþykkti á síðasta ári u.þ.b. 300 millj. kr. fjárframlag til að mæta rekstrarvanda hjúkrunarheimila en þessir peningar hafa ekki verið nýttir enn vegna þess að ekki hefur verið samið við félög í velferðarþjónustu sem annast rekstur hjúkrunarheimilanna. Það er mál sem verður að taka á og að Sjúkratryggingar Íslands semji um hina svokölluðu hjúkrunarþyngd eða hækkun á henni í krónum talið til að hægt sé að reka þennan mikilvæga málaflokk eins og á að gera.

Það má segja, herra forseti, að það sé afleitt að haldið sé áfram að draga úr fjárfestingaráformum sjóðsins með því að veita fjármagn úr honum til rekstrar í stað þess að hann einbeiti sér að þeim fjárfestingarverkefnum sem hann á að sinna samkvæmt lögum. Þetta tel ég vera dæmi um að ekki er horft á heildarmyndina og verið að setja á laggirnar sjóði sem síðan eru nýttir í annað en þeim var ætlað í upphafi. Það er slæmt vegna þess að það bitnar þá á málaflokknum í heild sinni eins og t.d. rekstrinum. Það er lítið gagn í nýjum hjúkrunarheimilum, nýju og góðu húsnæði, ef ekki eru til peningar til að reka slíka þjónustu. Það er það sem skiptir höfuðmáli.

Þetta teygir anga sína víðar í heilbrigðiskerfinu, lýtur t.d. að mönnunarvandanum og einnig fráflæðisvanda á Landspítalanum. Það er afar brýnt að leysa fráflæðisvandann. Ég hef lagt áherslu á það hér. Það er eldra fólk sem notar sjúkrarými á Landspítalanum sem þarf þess í raun og veru ekki en er að bíða eftir því að komast á nýtt heimili þar sem hjúkrunarþjónusta er í boði en það rými liggur ekki á lausu. Þessi málaflokkur tengist inn á þennan mikilvæga þátt, að leysa fráflæðisvanda Landspítalans svo að hægt sé að nýta þau sjúkrarými sem þar eru og sinna þeim sem þurfa á því að halda.

Að þessu sögðu lýk ég máli mínu, herra forseti. Tímanum er lokið. Það er margt (Forseti hringir.) sem þarf að huga að í sambandi við þetta frumvarp. Þá nefni ég sérstaklega það að draga úr því að ríkið þurfi alltaf að ganga fram fyrir skjöldu með að hækka gjöld.