150. löggjafarþing — 42. fundur,  10. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[15:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hann gerði að umtalsefni að það hefði fækkað mikið í þjóðkirkjunni og nýskráningum fækkað mjög. Það ber að hafa í huga í þeim efnum að gerðar voru breytingar á skráningarfyrirkomulaginu og það hefur gert að verkum að þessar tölur hafa lækkað. Ástæðan er sú að nú eru börn foreldra ekki sjálfkrafa skráð í þjóðkirkjuna eins og var þannig að þær breytingar hafa ákveðin áhrif. Það er rétt að halda því til haga.

Hv. þingmaður spurði um þessa þjónustu og það er nefnilega mjög góð spurning. Hugmyndafræðin á bak við þetta samkomulag er m.a. sú að það var mjög erfitt að veita þessa þjónustu, t.d. á landsbyggðinni. Þeir sem hafa mælt fyrir þingsályktunartillögu um fullan aðskilnað ríkis og kirkju og nefna í því sambandi að það eigi að leggja niður alla samninga við kirkjuna af hálfu ríkisins gera sér ekki grein fyrir því að þetta getur komið í veg fyrir að hér verði öflugt kirkjustarf um allt land. Það er erfitt að halda uppi kirkjustarfi í fámennum söfnuðum úti á landi og það eru sjóðir innan kirkjunnar sem m.a. er hægt að leita í til að sinna viðhaldi á kirkjum á landsbyggðinni, sem dæmi. Þetta er partur af okkar menningarlandslagi þegar við ferðumst um landið, hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn o.s.frv. Þessu er ekki hægt að sinna nema til komi þetta samkomulag. Það er bara svo einfalt. Því fylgir að sjálfsögðu líka þessi mikilvæga þjónusta sem ég rakti hér áðan í fámennum byggðarlögum.

Þó að unga fólkið, eins og hv. þingmaður nefndi sérstaklega, hafi ekki sérlegan áhuga á kirkjustarfi er ég ekki viss um að hv. þingmaður geti alhæft um það hér. Það er nú einu sinni þannig að þegar menn lenda kannski í skipbroti í lífinu snúa þeir sér oft til kirkjunnar og hún veitir þá mjög góða þjónustu, sálgæslu og annað slíkt.