150. löggjafarþing — 43. fundur,  11. des. 2019.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál
[19:33]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hérna er kannski samkvæmt orðanna hljóðan ekkert sérlega flókið. Það kveður á um ákveðinn aðskilnað starfsmanna þjóðkirkjunnar, að þeir teljist ekki lengur til embættismanna heldur starfsmenn þjóðkirkjunnar, hún sé ábyrg fyrir bókhaldi sínu, launagreiðslum o.s.frv. Málið hvílir hins vegar á svokölluðu kirkjujarðasamkomulagi og þeim samningum sem gerðir hafa verið í framhaldi af því og sá sem hér stendur er í það minnsta þeirrar skoðunar að þingið fái allt of sjaldan tækifæri til að ræða í grundvallaratriðum um það mál, hvernig að þeim samningum var staðið, hvernig að endurnýjun þeirra var staðið sl. haust og hvernig rétt sé að höndla samninga sem þessa til lengri tíma litið.

Í grundvallaratriðum snýst þetta ekki um það hvort þjóðkirkjan okkar sé þjóðkirkja eða ekki eða hvort aðskilja eigi kirkjuna að fullu frá ríki eða ekki. Við erum með stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkju. Við erum með vilja meiri hluta landsmanna samkvæmt öllum skoðanakönnunum um að svo eigi að vera og ég er í það minnsta þeirrar skoðunar að við eigum að sjálfsögðu að virða það um leið og við gætum að öðrum grundvallaratriðum eins og trúfrelsi og jafnræði meðal trúfélaga eins og kostur er. Sjálfur er ég skráður í þjóðkirkjuna, skírður í kirkju, hef látið skíra börnin mín í kirkju, kvæntist í kirkju o.s.frv. og hef sjálfur góða reynslu af þjónustu kirkjunnar.

Mér finnst dálítið áhugavert að horfa á þetta mál og eðli kirkjujarðasamkomulagsins og þeirra samninga sem á því samkomulagi hvíla út frá skýrleika þeirra samninga og út frá lögum um opinber fjármál. Þau lög eru vissulega til komin eftir að kirkjujarðasamkomulagið sjálft var gert en áður en það samkomulag sem þetta frumvarp hvílir á var undirritað og þar er að ansi mörgu að huga. Í því samkomulagi sem hér um ræðir er skuldbinding fyrir ríkissjóð til í það minnsta næstu 17 ára. Hér er um ótímabundinn samning að ræða sem ekki er hægt að segja upp eða óska eftir endurskoðun á fyrr en að 15 árum liðnum. Þá tæki við að lágmarki tveggja ára ferill ef hugur stæði til að segja þessu samkomulagi upp. Þá velti ég fyrir mér atriðum í lögum um opinber fjármál þar sem almennt er haft það viðmið að samningar skuli ekki gerðir til lengri tíma en fimm ára í senn og spyr: Af hverju er vikið frá því viðmiði hér? Þó að heimildir séu til undanþágu, t.d. ef um miklar fjárfestingar er að ræða, er engin tilraun gerð til að rökstyðja það í þessu samkomulagi eða frumvarpinu hvers vegna samið sé til svo langs tíma. Það er skemmst að minnast umræðu í þingsal fyrir ekki svo löngu um búvörusamninga sem voru einmitt gerðir til mjög langs tíma og ollu miklum deilum í þinginu af því að þar var verið að skuldbinda ríkissjóð til mjög langs tíma án þess að þingið hefði haft nokkra beina aðkomu að samningnum eða staðfest hann með nokkrum hætti og í raun var eingöngu vísað til fjárheimilda hvers árs. Framkvæmdarvaldið skuldbindur sig til þess að tryggja fjármuni til þessa samnings á hverju ári til næstu 15 ára án þess að þingið hafi staðfest þá ráðstöfun. Þá veltir maður fyrir sér þessari spurningu: Er framkvæmdarvaldið ekki að seilast svolítið út fyrir sitt valdsvið með því að semja til svo langs tíma sem hér um ræðir án þess að leggja samninginn í það minnsta fyrir þingið til samþykktar eða synjunar áður en hann tekur gildi?

Í því samhengi er áhugavert að hafa í huga, eins og kemur ágætlega fram í greinargerðinni, að vissulega var þessi samningur borinn undir þing. Hann var borinn undir kirkjuþing til staðfestingar en ekki Alþingi Íslendinga. Framkvæmdarvaldið taldi sig hafa fullt umboð til að undirrita svo langan samning með jafn miklum skuldbindingum og í honum felast án þess að þingið staðfesti hann með neinum formlegum hætti.

Hér í umræðunni hefur verið velt upp spurningunni: Af hverju er vikið frá tæknilegum útfærslum frumvarpsins í þessari umræðu? Það er einmitt vegna þess að þingið fær aldrei tækifæri til að ræða þau grundvallaratriði sem um er að ræða í þessu málum; um kirkjujarðasamkomulagið, aðskilnað ríkis og kirkju, hvernig að því skuli staðið, hvernig staðið skuli að samningagerð sem þessari í grundvallaratriðum, um skýrleika svona samninga, þær skuldbindingar sem ríkið tekur á sig en ekki síður þær margháttuðu skyldur sem þjóðkirkjan tekur að sér samkvæmt kirkjujarðasamkomulaginu. Í umræðunni hefur ítrekað verið vísað í þær skyldur. Vissulega gegnir þjóðkirkjan mjög veigamiklu hlutverki, hún tekur að sér ýmsa félagsþjónustu, sáluhjálp og annað. Þó vekur athygli að í því samkomulagi sem hér er um að ræða og undirritað var af hálfu forsætisráðherra, fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra sl. haust eru margháttaðar lýsingar á skyldum ríkissjóðs í þessu samhengi, hvað ríkissjóði beri að greiða, hvernig það skuli uppreiknað o.s.frv. En það er ekkert tíundað um skyldur þjóðkirkjunnar í þeim samningi, hvaða þjónustu þjóðkirkjan inni í raun og veru af hendi. Myndum við gera samning við t.d. þjónustuveitendur í heilbrigðiskerfinu þar sem við borguðum þeim umtalsverðar fjárhæðir fyrir það eitt að vera til staðar, ekkert háð umfangi þjónustunnar sem veitt er eða neinum gæðaviðmiðum, skilyrðum eða eftirliti af neinu tagi um það hvort sú þjónustan sé raunverulega veitt? Ég hygg að við myndum aldrei sætta okkur við slíkan samning gagnvart neinum öðrum aðila en þá þjóðkirkjunni.

Nú sit ég í fjárlaganefnd og okkur ber að hafa viðamikið eftirlit með fjárhag ríkisins, framkvæmd fjárlaga og að við séum raunverulega að fá það sem ætlast er til fyrir þá fjármuni sem veittir eru. Hvernig stendur á því að við erum tilbúin að gera svo litlar kröfur til jafn mikilla fjárhæða og hér er um að ræða? Þessir samningar skuldbinda ríkissjóð á hverju ári um á fjórða milljarð, verðbætt til næstu 15 ára. Samningurinn sem slíkur slagar sennilega hátt í 60 milljarða ef út í það er farið.

Þá kemur að hinu fordæmalausa kirkjujarðasamkomulagi þar sem vafi leikur á hvaða jarðir er um að ræða, hvers virði þær voru, hvort og hvenær þær séu þá nokkurn tímann uppgerðar sem slíkar. Við kunnum öll að hafa okkar sjálfstæðu afstöðu til þjóðkirkjunnar, aðskilnaðar ríkis og kirkju og hversu viðamikið hlutverk þjóðkirkju skuli vera eða hvort hlutverkið skuli vera eitthvert yfir höfuð, en þegar ríkissjóður reiðir svo mikið fjármagn af hendi á ári hverju til eins aðila á fjárlögum hljótum við að gera meiri kröfur en þessar um skýrleika samningsins, fyrir hvað er verið að greiða, hvernig árangur af því skuli metinn o.s.frv. Á sama tíma og við erum með samkomulag til næstu 15 ára, verðbætt og launabætt að hluta, horfum við líka á þá einföldu staðreynd að aðild landsmanna að þjóðkirkjunni hefur verið fallandi um langt árabil, á sama tíma og við höfum verðbætt og aukið í greiðslur okkar til þjóðkirkjunnar á hverjum tíma. Þetta samkomulag tekur ekki með nokkrum hætti tillit til minnkandi vægis þjóðkirkjunnar á móti öðrum trúfélögum í samfélaginu. Mér finnst til lengri tíma litið algjörlega óásættanlegt að ekki séu gerðar skýrari viðmiðunarkröfur um þá þjónustu sem kirkjan innir af hendi og eins skýrari endurskoðunarákvæði en að hægt sé að biðja um endurskoðun á þessum samningi að 15 árum liðnum. Ef við horfum aftur til þessa langa skuldbindingartíma og þeirrar staðreyndar að þingið kom ekki með neinum hætti að staðfestingu samkomulagsins hefði ég talið fyrir það fyrsta mjög eðlilegt að þegar þessi endurskoðun eða uppfærsla á kirkjujarðasamkomulaginu kom til umræðu milli ríkis og kirkju hefði samkomulagið í heild sinni verið tekið upp og samið á nýjan leik í samræmi við lög um opinber fjármál. Það eru þau lög sem við störfum eftir í dag. Þó að þau hafi ekki verið í gildi þegar kirkjujarðasamkomulagið var gert er fullkomlega eðlilegt að taka svona samkomulag upp að fullu, að teknu tilliti til þeirra umfangsmiklu breytinga sem orðið hafa á fjármálastjórn ríkisins og á lagaumgjörð um opinber fjármál og fella nýtt samkomulag að þeirri umgjörð. Það getur ekki verið hægt að gera minni kröfur en það til framkvæmdarvaldsins. Í grundvallaratriðum hefði það ekki þurft að fela í sér einhverjar breytingar á þeim fjárhæðum sem um er að ræða en það hefði gert þá kröfu að eldra samkomulag hefði sökum óskýrleika þess verið gert upp með einhverjum hætti og gerður nýr samningur um það hvernig stuðningi ríkisins við þjóðkirkjuna skyldi háttað og settar fram skýrar kröfur um það hvaða þjónustu kirkjunni bæri að inna af hendi og hvernig endurskoða mætti þessa samninga frá einum tíma til annars. Það er í mínum huga ansi langt gengið af hálfu framkvæmdarvaldsins að binda hendur löggjafans til 15 ára, langt umfram það umboð sem handhafar framkvæmdarvaldsins, meiri hluti hér á Alþingi, hafa til þess að binda hendur ríkisins með þessum hætti án þess að breytingar á lýðræðislegum vilja þjóðarinnar hafi nokkur tök á því að koma að endurskoðun á samkomulagi sem þessu.

Þess vegna hefði ég talið lágmarkskröfu að í fyrsta lagi hefði verið samið um uppgjör á jarðakaupunum sem kirkjujarðasamkomulagið á sínum tíma tók til, þá hefði verið stofnað til nýrra samninga um þjónustu þjóðkirkjunnar fram á veginn innan þess ramma sem lög um opinber fjármál setja slíkum samningum, með þeim skýrleika og möguleikum til eftirlits sem lögin setja svo ríka skyldu á Alþingi, fjárlaganefnd og þar til bæra eftirlitsaðila eins og Ríkisendurskoðun um að sinna. Þá hefðum við getað haldið áfram með hlutverk þjóðkirkjunnar sem er áfram stjórnarskrárbundin þjóðkirkja og sem ríkur vilji þjóðarinnar stendur til að sé áfram stjórnarskrárbundin þjóðkirkja en í samræmi við þau lög sem við höfum sett okkur í millitíðinni um skýrleika og þann ramma sem slíkum samningum ber að lúta.

Síðan má alveg velta fyrir sér grundvallaratriðum um trúfrelsi og hversu mikið trúfrelsi ríkir í raun þegar eitt trúfélag, sem um 60% þjóðarinnar tilheyra, hefur jafn mikla yfirburði og raun ber vitni, eins og þjóðkirkjan hefur. Það má alveg velta fyrir sér í tengslum við endurskoðun á samningum sem þessum hvort það sé hlutverk ríkissjóðs að greiða fyrir þjónustu kirkju eða trúfélaga almennt eins og sáluhjálp eða einhvers konar félagslega aðstoð. Er það ekki einfaldlega trúarleg skylda viðkomandi trúfélaga sem þau rækja samkvæmt sinni samvisku frekar en að ríkið sé með almennum hætti að styðja við starfsemi trúfélaga, t.d. í gegnum sóknargjöld? Það er þá vilji sóknarbarnanna eða val almennings hvaða trúfélagi hann vill tilheyra eða hvort hann vill yfir höfuð tilheyra einhverju trúfélagi.

Það hefði verið áhugavert að fá tækifæri til að ræða slíka þætti ef framkvæmdarvaldið hefði gætt þeirrar almennu kurteisi gagnvart Alþingi að bera þær spurningar upp við þingið, sækja sér eitthvert umboð á Alþingi til samningsgerðar sem þessarar, sem við tökumst núna á við einhverjar tæknilegar útfærslur á. Mér finnst ekki boðlegt út frá fjárveitingavaldi löggjafans að framkvæmdarvaldið geti skuldbundið löggjafann, almenning í þessu landi, til umtalsverðra fjárútláta til næstu 15 ára án þess að eiga nokkra möguleika á því að endurskoða hvaða kröfur eru þar gerðar, hvernig eftirliti skuli háttað, hvaða þjónusta skuli veitt eða hvort við viljum nálgast þessi mál með einhverjum öðrum hætti. Við kjósum til Alþingis til fjögurra ára í senn. Það er eðlilegt að horft sé til slíks umboðs þegar langtímasamningar eru gerðir af hálfu ríkisins. Það þarf mjög sérstakan rökstuðning fyrir því að framkvæmdarvaldið geti tekið sér það vald að semja til 15 ára án möguleika á endurskoðun, án þess að gera svo lítið sem að bera slíka samninga undir Alþingi með öðrum hætti en að krefjast fjárheimilda til þess að efna þá á ári hverju.