150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég dró þetta nú svona fram vegna síðustu orða hv. þingmanns í hans fyrra andsvari. Á margan hátt erum við bara að ræða um tækni og hvernig við framkvæmum þessi lög og auðvitað er það óskaplega óáhugaverð umræða í sjálfu sér. En í meginatriðum eru fulltrúar í fjárlaganefnd með ósköp skýra sýn á hvernig skuli ná betur utan um þau fjárstýringartæki sem við höfum.

Mig langar bara að benda á, rétt eins og hv. formaður fjárlaganefndar gerði í andsvari við hv. þingmann áðan, að Ríkisendurskoðun segir í umsögn sinni um fjáraukalagafrumvarpið að í öllum meginatriðum sé hér farið að þessum lögum. En síðan eru í því ákveðnar millifærslur og ég verð bara að segja vegna þess sem þingmaðurinn ræðir um millifærslur vegna ljósleiðara að þetta eru í eðli sínu bara millifærslur innan málaflokka. Það hefði kannski átt að kveikja fyrr á viðvörunarljósum hjá okkur í fjárlaganefndinni (Forseti hringir.) að gera athugasemd við það því þetta eru eiginlegar millifærslur á milli verkefna en ekki aukafjárveitingar.