150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[17:51]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir andsvarið. Þetta er umræða sem við höfum tekið mikið í nefndinni og er nokkuð sem við í nefndinni viljum vinna með. Hv. þingmaður dró hér fram að ég hefði sagt „kenna“. Kannski er það af því að ég hef unnið sem kennari í svo mörg ár sem ég nota það orð. Þetta er orðað miklu betur í nefndaráliti meiri hlutans, þar segir beinlínis að nefndin leggi til að „fjármála- og efnahagsráðuneytið vinni að markvissri kynningu á verklagi fyrir einstök ráðuneyti“. Förum að vinna með verklagið út í gegnum ráðuneytin þannig að við bætum verklagið og nýtum betur fjarstjórnartækin. Ég held að með því lagi fengi nefndin (Forseti hringir.) betri yfirsýn frá ráðuneytunum og við fengjum þetta ekki allt hér á lokametrunum í álitum. Ég held að það sé kannski fyrst og fremst það sem ég var að draga fram, það sem kemur fram í nefndaráliti.