150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[21:37]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Þetta hefur verið býsna fróðlegt og hefur verið gaman að fylgjast með þessari umræðu þó að ég hafi gert það úr útvarpstæki lengst af. Maður heyrir fólk tala sem situr í nefndinni og hefur yfirgripsmikla þekkingu á þessum málum og lögunum sem frumvarpið byggir á. Mér heyrist flestir vera sammála um að margt hafi lagast á síðustu árum en það er líka ýmislegt sem greinilega hefur ratað inn í frumvarpið sem á þar ekkert heima. Hvort það byggir á hinni íslensku heimspeki, að þetta reddist einhvern veginn, veit ég ekki. Hv. þm. Birgir Þórarinsson velti því fyrir sér áðan hvort stjórnvöld vilji ekki, skilji ekki eða geti ekki og hvort alltaf þyrfti að setja allt í nefnd til að koma fjármunum þangað sem þá skortir á hverjum tíma. Ég held að þetta sé að einhverju leyti spurning um menningu eða ómenningu. Ég held að það sé líka alveg örugglega spurning um skort á fyrirhyggju og framtíðarsýn. Það er auðvitað eitthvað sem við þurfum að taka býsna alvarlega. Þess vegna finnst mér, í tengslum við þessa umræðu og þetta mál, ágætt að einhver ræði aðeins hvernig við erum sýknt og heilagt að kalla yfir okkur óvæntan, ófyrirséðan og afleiddan kostnað. Hér hafa nokkrir þingmenn talað um hvort við værum á réttri leið. Jú, það getur vel verið að við séum á réttri leið varðandi vinnubrögðin en við þurfum hins vegar líka að fara að velta fyrir okkur hvort þeir fjármunir sem við setjum í mál nægi og ekki bara til þess að ekki þurfi að bæta við einhverjum krónum og aurum, þúsundköllum og jafnvel milljörðum, í fjárauka eða taka það úr varasjóði heldur hvort þær ráðstafanir sem við gerum skapi kostnað annars staðar. Það þekkjum við auðvitað öll að um það eru mörg dæmi.

Ég er ekki að ráðast á eða beina spjótum mínum að núverandi ríkisstjórn þegar ég velti þessum hlutum fyrir mér heldur bara svona almennt. Það held ég að okkur sé bara dálítið hollt. En við erum hins vegar líka að ræða fjáraukalög sem eiga að mæta ófyrirséðum útgjöldum og þá takast einstaklingar hér eðlilega á um það hvenær útgjöld eru ófyrirséð og hvenær ekki. Afkoma ríkisins átti að vera 29 milljarðar í afgang en í staðinn horfum við upp á 15 milljarða í halla. Á því kunna vissulega að vera margar skýringar. Hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson hefur bent á héraðsbrest sem orðið hefur á nokkrum sviðum og það er alveg örugglega hlutur sem skiptir máli en annars staðar er það ekki. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni að fjárlaganefndarmenn minni hlutans hafi allir talað um að þeir hafi séð þetta fyrir, a.m.k. þeir sem ég hef hlustað á bentu allir á að viðvörunarbjöllur hringdu svo víða í samfélaginu, hjá fjármálaráði, ASÍ og svo víðar. Þetta er því kannski blanda af einhverju tvennu.

Ég velti fyrir mér þegar við erum trekk í trekk að leggja fram fjárlög þar sem ýmsir málaflokkar eru beinlínis vanfjármagnaðir og algjörlega fyrirséð að það muni kalla á aukið fjármagn og afleiddan kostnað annars staðar, jafnvel hjá einstaklingum. Við getum kallað þetta hirðuleysi, blindu, fyrirhyggjuleysi, klaufaskap og ég ítreka aftur að ég er ekki að tala um akkúrat þær aðstæður sem við erum í núna. Ég er bara að tala um þessa íslensku menningu vegna þess að við erum að mörgu leyti vel í sveit sett. Við höfum fjölbreytta og trausta atvinnuvegi, getum tekist á við alls konar áföll og við ættum að geta farið að horfa lengra fram í tímann. Svo að ég taki dæmi af slíkri vanfjárfestingu get ég nefnt Landspítalann, sjúkraflutninga, heilsugæsluna, lagningu ljósleiðara svo ekki sé nú minnst á skort á getu til að flytja öruggt rafmagn milli landshluta. Öll berum við einhverja sök á því. Það er kannski skýrasta dæmið í augnablikinu um að það er ekki algjörlega út í hött það sem gamla konan sagði um árið: Það er dýrt að spara. Sá kostnaður sprettur auðvitað upp annars staðar í samfélaginu fyrir utan að hann kallar ýmis óþægindi og óþægilega hluti yfir okkur líka. Ég held einnig að lægri útgjöld ríkisins vegna vaxtabóta hafi ekki endilega verið ófyrirséð og ekki af hinu góða. Framlög til vaxtabóta lækka í fjáraukalögum um rúma 2 milljarða. Ég held að það sýni hvernig ríkisstjórnin hefur grafið undan þessum nauðsynlega húsnæðisstuðningi við fólk. Laun hafa vissulega hækkað en skerðingarnar eru orðnar brattari og það leiðir til lækkunar á vaxtabótum. Ávinningur lágtekjufólks sem á lítið eigið fé er horfinn, það fólk lendir í vandamálum. Kostnaðurinn lendir á einstaklingnum og almenningi og munum að heimilin í landinu geta ekki sest niður í byrjun desember og gert aukafjárlög fyrir liðið ár og um það held ég að við þurfum öll að hugsa.

Ég get bætt heilbrigðiskerfinu við, rekstrarhalli Landspítalans er stöðugur. Einhverjir kunna að segja að fara þurfi vel með fé og ég get tekið undir það. Það þarf líka að skoða. En það getur ekki verið eina skýringin. Til þess eru hlutirnir of augljóslega í lamasessi. Vanfjármögnun á hjúkrunarheimilum á landsbyggðinni birtist ekki endilega sem neinn skaði í bókhaldi Alþingis eða í fjárlögum og uppgjöri ríkissjóðs, en kostnaðurinn lendir þá bara á stofnunum sem reka hjúkrunarheimilin eða á einstökum sveitarfélögum. Er það gáfulegt? Ég held ekki. Við erum áratugum á eftir í mikilvægum vegaframkvæmdum. Við erum að verja heldur lægra hlutfalli af vergri landsframleiðslu en nágrannalöndin. Þó erum við með, held ég, vita og hafnir inni í okkar tölum og við eigum eftir að byggja upp vegina á meðan nágrannaþjóðirnar eru fyrst og fremst að hugsa um að viðhalda þeim og bæta öryggi. Er hugsanlegt að það sé einhver afleiddur kostnaður af því? Já, alveg ábyggilega og frekar óhuggulegur oft og tíðum vegna þess að slys eru þessu samfélagi bæði dýr og óbætanleg í svo mörgum skilningi þess orðs.

Við vöruðum ríkisstjórnina við því og gagnrýndum, þegar fjármálaáætlun var lögð fram, að svigrúm síðustu ára í góðærinu hefði ekki verið nýtt til að afla tekna heldur hefðu tekjustofnar beinlínis verið gefnir eftir. Við hefðum þurft að nota þá fjármuni á þeim tíma til að endurreisa heilbrigðiskerfið, endurreisa skólana og ráðast í innviðauppbyggingu. Þegar við lendum svo í einhvers konar niðursveiflu, sem sumir vilja kalla tímabundna kólnun og aðrir litla kreppu, þá erum við í pínulitlum vandamálum. Ekki er vilji til þess að afla tekna þar sem þó er hægt að gera það og þá þurfum við að stramma af og minnstu óvæntu atburðir geta svo leitt til þess að við lendum í enn verri vandamálum en áður.

Ég held að niðurstaðan af þessum hugleiðingum mínum sé sú að okkur — þá er ég að meina okkur en ekki ykkur — skortir heildaryfirsýn. Okkur skortir framtíðarsýn. Okkur skortir metnað umfram það sem við höfum í dag. Ég veit ekki hvort þetta er vangeta til að sjá samhengi orsaka og afleiðinga. En það er alveg ljóst að land sem er þrátt fyrir allt þetta öflugt og sterkt og ríkt og með mikið af hæfileikafólki, getur ekki alltaf lifað í tómum viðbrögðum og klastri og bútasaumi. Við þurfum að komast fyrir vaðið. Við þurfum eiginlega að fara að hugsa stærra um þetta. Hér erum við nánast í hverri viku að tala um þær breytingar sem eru að fara að eiga sér stað samfara fjórðu iðnbyltingunni, brjálæðislegar framfarir með þessari stafrænu byltingu og róbótavæðingu; vélarnar eru ekkert að taka við af vöðvunum eins og fyrir 150 árum heldur að einhverju leyti að hjálpa okkur að hugsa og hugsa fyrir okkur í sumum tilfellum. Á þeim tíma tókst okkur að nýta okkur þær breytingar, þann félagslega suðupott sem varð til þegar fólk flykktist inn í borgirnar. Við byggðum skóla, fyrst grunnskóla, síðan menntaskóla og svo háskóla. Fólk hittist og bjó til stjórnmálahreyfingar. Konur kröfðust kosningarréttar. Það urðu stórkostlegar félagslegar framfarir. Við erum að pínulitlu leyti á svipuðum tímamótum núna. Þá megum við eiginlega ekki haga okkur þannig að við séum bara eins og fyrir 100 árum, að við látum okkur nægja að sigla út og veiða nokkra fiska og eyða svo restinni af deginum í að gera við netin og fara aftur út. Við þurfum að hugsa miklu lengra fram í tímann. Þess vegna þurfum við einfaldlega að gera stórátak, gera byltingu í menntamálum, eyða miklu meiri peningum í rannsóknir, nýsköpun, byggja miklu meira á hugviti frekar en frumgreinunum okkar og til þess getum við ekki búið við það að við stöndum í stað hvað varðar fjárveitingar til menntakerfisins og séum svo alltaf í lok hvers árs að bæta við nokkrum 100 þúsundköllum eða milljónum við til að skólarnir beinlínis lognist ekki út af.

Hér hefur nefnilega ekki átt sér stað sú stórsókn í menntamálum sem boðuð var. Háskólinn stendur í stað. Framhaldsskólarnir eru vanfjármagnaðir og slíkt höfum við oft upplifað. En nú erum við á öðrum tímum og nú þurfum við að gera hlutina allt öðruvísi. Ég er býsna hræddur við að ef við höldum áfram að gera þetta, lifum svona frá degi til dags, frá ári til árs, en reynum ekki að horfa á þær brjálæðislegu breytingar sem eru að verða á umhverfi okkar og heiminum, þá verðum við í þessu stappi ár eftir ár, að takast á um hvort peningarnir sem við settum ekki í nógu miklum mæli í þennan hlut eða hinn ættu að fara úr varasjóði, á fjárauka eða hefðu átt að fara í fjárlög ársins fyrr. Og við stöndum frammi fyrir ótrúlegu tækifæri vegna þess að það sem hefur alltaf sett okkur Íslendingum takmörk er að vera mjög fámenn þjóð í risastóru landi. Það sem hefur sett okkur takmörk eru þessar fáu hendur. Hin nýja tækni hins vegar, hin stafræna tækni, setur okkur miklu síður mörk í þessum skilningi vegna þess að það þarf engar vélar, það þarf engar hendur til að búa til nýtt eintak af öskubakka eða gosflösku eða harðfiskpakka. Það þarf mikið hugvit, þolinmótt fjármagn og víðsýni fólks til að leyfa fólki að reyna og mistakast og mistakast þar til tekst að búa til dýra og verðmæta vöru og eftir það kostar ekkert annað að framleiða hana en að ýta á takka á lyklaborði og þá er hún komin umsvifalaust út í heim, hvert sem er á jarðarkringlunni, án sótspors sem hjálpar okkur heldur betur í þeirri umræðu sem við þurfum að fara að eiga.

Ég er fyrst og fremst kominn hingað til að stappa í okkur stálinu, að við setjum okkur háleit markmið. Við megum alveg örugglega temja okkur að vinna betur saman og ég ítreka í þriðja skipti að þessari gagnrýni er ekki endilega beint að okkur sem hér erum eða þeim sem eru í meiri hluta heldur til að ítreka að við getum ekki lengur miðað við það að setja það sem rétt nægir í hlutinn og tæplega það. Við þurfum að þora að fara að fjárfesta, hugsa stórt og ég held að okkur vegni betur ef við vinnum saman í því. Við lifum á spennandi tímum og við skulum sjá hvort okkur tekst að gera eitthvað gott úr þeim.