150. löggjafarþing — 44. fundur,  12. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[23:33]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held einmitt að hluti af þeim áhyggjum sem ég hef af framkvæmdinni felist kannski í því sem hv. þingmaður kallaði í ræðu sinni áðan aukið ráðherraræði og kom inn á það að nokkru marki í svari sínu. Þá langar mig í framhaldinu að spyrja hv. þingmann hvaða þættir það eru helst, hvort það sé eitthvað sem við gætum gert öðruvísi á fyrri stigum innan ársins, kallað fram einhverjar tilteknar upplýsingar, til að mynda varðandi meðferð varasjóðanna tveggja sem við ættum að kalla eftir, hafandi leitt hugann að því núna, hvort sem það eru stjórnarandstöðuþingmenn sem kalla eftir því á fyrri stigum á næsta ári eða sem betur væri að hæstv. fjármálaráðherra veitti þær upplýsingar að fyrra bragði. Ég gef mér að þær séu veittar í fjárlaganefnd en meiri hluti þingmanna á auðvitað ekki sæti í fjárlaganefnd þannig að aðgengi okkar þingmanna sem ekki erum í fjárlaganefnd að þessum upplýsingum er heldur takmarkað. Mig langar að spyrja hv. þingmann aftur, í því ljósi að hún þekkir þetta umhverfi fjármálaráðuneytisins prýðilega frá fyrri störfum sínum, hvort það sé einhver minnispunktur sem við ættum að setja hjá okkur núna varðandi upplýsingaöflun á fyrri parti næsta árs sem gæti sparað okkur það að standa í þessum sporum, a.m.k. að hluta til, þegar í næsta hring kemur.