150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:34]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru ekki nein nákvæm og yfirlýst áform um það hjá Sjálfstæðisflokknum hver mánaðaskiptingin eigi að vera og ég veit alveg að um það eru jafn skiptar skoðanir og við erum mörg. Almennt er ég þeirrar skoðunar að það eigi að vera valmánuðir og að þeir eigi að vera fleiri en færri en þó eigi ekki að vera alveg fullt val. Ég tel það mikilvægt til að tryggja að börnin fái sem mestar samvistir með foreldrum sínum. Svo þarf bara að skoða það nánar, og ég treysti því að þessi nefnd geri það, hvernig barnið fái örugglega 12 mánuði og að báðir foreldrar séu með þrjá, fjóra, fimm, sex mánuði, hvað sem hentar best. Ég vil bara fá að sjá almennilega vinnu og tölur á bak við það áður en ég úttala mig endanlega um það.

Það er alveg eðlilegt þegar við ræðum jafnréttismál og jafnréttisáætlun að þau leggi fram skiptinguna fimm, fimm, tveir. Það er kannski alveg eðlilegt þegar fæðingarorlofslögin koma inn sem vinnumarkaðslög að þau horfi í þá átt líka. Ef við værum hins vegar að tala um fæðingarorlof inni í barnalögum er ég ekki handviss um að þetta yrði endanlega niðurstaðan. Það er sú vinna sem ég vona að þessi nefnd sé að skoða, hvað barninu sé fyrir bestu. Við þurfum að hafa það númer eitt, tvö og þrjú, rétt eins og við höfum samþykkt í barnalögum. Við þurfum að vera meðvituð um hvar við erum að ræða þessi mál og hvaða sjónarmið við setjum í fyrsta sætið.