150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

393. mál
[12:43]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt það sem við erum að gera hér. Með þeirri breytingartillögu sem nefndin leggur fram er hún að tryggja 12 mánuðina í sessi. Við erum að tryggja að komi eitthvað upp á sem myndi tefja það að frumvarpið kæmi inn í október — sem ekkert bendir til í dag að muni gerast, starfshópurinn er farinn af stað og var farinn af stað áður en frumvarpið var komið. Upphafleg áform ráðherrans voru að leggja bara fram árið 2020 eins og sást í samráðsgáttinni — en ef eitthvað gerist teljum við öruggara að segja til um hvað gerist tefjist það fram yfir næstu áramót, 2020–2021. Þá er öruggara að gera þetta svona. En við göngum hvorki lengra né skemmra en kerfið sem mun vera í gangi 2020. Við höfum ekki of mikil áhrif á það faglega ferli sem er í gangi núna. Við leyfum því bara að starfa í friði. Ég tel að við göngum fram eins vægt og við getum. Samt tryggjum við að það verði alveg örugglega 12 mánuðir og það liggur alveg ljóst fyrir að kerfið mun ganga upp af því að sumar útfærslur af þessu gætu gert það líka. Það gæti verið tólf, núll, ef við útfærum mánuðina ekki á einhvern hátt í lögunum.

Ég tel rétt að við höldum áfram eins og kerfið er á meðan faglega vinnan er í gangi og vonandi mun aldrei reyna á bráðabirgðaákvæðið, það er það sem við leggjum upp með.