150. löggjafarþing — 47. fundur,  17. des. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[13:08]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni ræðuna. Ég er í sjálfu sér ekki með beina spurningu til hv. þingmanns en vil vegna síðustu orða hans minna okkur á að við erum að greiða atkvæði um dæmigerð fjáraukalagaútgjöld. Vissulega fór hv. þingmaður vel yfir það og viðurkenndi það en út af kirkjujarðasamkomulaginu hafa viðræðurnar dregist eins og hv. þingmaður hefur margoft komið inn á. Sú ákvörðun var tekin hér á sínum tíma að setja ekki tiltekna fjárhæð inn í fjárlagafrumvarp til að raska ekki þessum samningum og viðræðum. Við hljótum að hafa einhvern skilning á því eins og ég hef alveg skilning á því, eins og ríkisendurskoðandi gerir og hv. þingmaður gagnrýnir, að þetta finni sér stað í fjáraukalagafrumvarpinu. Samt sem áður eru sjónarmið sem styðja það.

Ég minni okkur á að við erum að greiða atkvæði um dæmigerð fjáraukalagaútgjöld vegna aukins atvinnuleysis, vegna dóms um ólögmæti afturvirkrar skerðingar, umframgjöld ýmissa sjúkratryggingaliða, endurmetin útgjöld vegna fæðingarorlofs og leiðréttingu örorkulífeyris vegna búsetutíma. Það eru 95% af útgjöldunum en síðan eru önnur útgjöld upp á 5% sem eru jafnframt færð rök fyrir í greinargerð með frumvarpinu að séu tímabundin, ófyrirséð og óhjákvæmileg.