150. löggjafarþing — 48. fundur,  17. des. 2019.

afleiðingar óveðursins í síðustu viku og viðbrögð stjórnvalda, munnleg skýrsla forsætisráðherra. - Ein umræða.

[16:11]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Það er sannarlega ekki vanþörf á að taka þessa umræðu í dag eftir þá ótrúlegu atburði sem við horfðum upp á í liðinni viku. Ég hef fjórar mínútur, ætla að reyna að nýta þær vel en næ ekki að koma að öllu sem ég hefði viljað segja. Það er ekki auðvelt að setja sig í spor fólks sem var einangrað í óveðrinu langtímum saman, jafnvel svo dögum skipti, án rafmagns, án síma, án internets, án útvarps og í sumum tilvikum án hita. Það að hafa farið á staðinn var gagnlegt, þ.e. í Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og björgunarmiðstöðina á Akureyri, og ég fæ svo tækifæri til að fara á Hvammstanga, Blönduós og Sauðárkrók á morgun og hitta þar fólk. Það skiptir máli. Það er heldur ekki auðvelt að setja sig í spor viðbragðsaðila, björgunarsveita, viðgerðarflokka og annarra sem unnu og eru enn að vinna þrekvirki við hrikalegar aðstæður. Ég verð því að nota þetta tækifæri hér og þakka enn og aftur fyrir það.

Við verðum að læra af þessu, styrkja kerfin, bæta ferlana og auka viðbragðið. Þess vegna ákvað ríkisstjórnin að setja á fót átakshóp um umbætur á innviðum sem mun leggja fram tillögur um eflingu innviða og aðgerðir sem auka og bæta viðbúnað og viðbragð, svo sem mannafla, tækjakost og upplýsingagjöf.

Staðan á viðgerðum á línum Landsnets er sú að viðgerð á Húsavíkurlínu lýkur í dag, viðgerð á Dalvíkurlínu lýkur vonandi á morgun og viðgerð á Kópaskerslínu ætti að ljúka um helgina. Þar er um 20 manna flokkur við störf. Verið er að meta skemmdir á Laxárlínu og ekki er ljóst með viðgerð á þessum tímapunkti. Hjá Rarik voru truflanir í Hrútafirði og Miðfirði í nótt þannig að nokkrir bæir frá Reykjaskóla og út á Vatnsnes eru straumlausir en að öðru leyti er nánast allt 11 kílóvolta línukerfi Rariks komið í rekstur. Varaafl er keyrt fyrir Dalvík og norðausturhornið, Raufarhöfn, Þórshöfn og Bakkafjörð, bæði þéttbýli og sveitirnar. Unnið er að viðgerðum á milli Dalvíkur og Árskógsstrandar annars vegar og Ólafsfjarðar hins vegar.

Varaafl hefur réttilega verið mikið til umræðu vegna þessara atburða og í því sambandi er rétt að nefna að Landsnet óskaði í haust eftir tilboðum í nokkrar færanlegar olíurafstöðvar. Hver stöð er á bilinu 0,7–2 megavött en alls verða keypt 6 megavött í þessum áfanga og 6 til viðbótar síðar, alls 12 megavött. Stöðvarnar verða staðsettar þar sem áhættan er talin mest en hægt væri að flytja þær annað með skömmum fyrirvara. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik hefur fyrirtækið í vaxandi mæli byggt upp færanlegt varaafl og mun skoða hvort hægt sé að gera enn betur í því.

Varðandi áherslu á yfirbyggingar tengivirkja og notkun jarðstrengja bendir Rarik á að fyrirtækið hafi ákveðið fyrir 25 árum að setja allt sitt kerfi í jarðstrengi, eins og við höfum hér nefnt, og byggja yfir öll ný tengivirki. Síðan þá hafa verið byggð 25 yfirbyggð tengivirki og engar loftlínur, eingöngu jarðstrengir. Á hverju ári eru að jafnaði um 200 km af eldri línum færðir ofan í jörðina fyrir utan viðbætur við kerfið. Þetta nefni ég bæði vegna þess að það skiptir máli að hafa þetta í huga og sömuleiðis er erfitt að hugsa til þess hver staðan hefði verið ef þessar breytingar hefðu ekki átt sér stað.

Við kynntum fyrr á árinu átak til að flýta þrífösun sem felur auðvitað líka í sér jarðstrengjavæðingu og í ljósi síðustu daga skiptir þetta átak enn meira máli og það væri að mínu viti góð fjárfesting að setja aukinn kraft í það. En slíkt verður að setja í samhengi við jöfnun dreifikostnaðar sem við höfum hér oft rætt því að það er ekki ásættanlegt að dreifbýlið þurfi alfarið sjálft að bera uppi nauðsynlegar umbætur á kerfinu, sérstaklega ekki þegar við lítum til þess að þegar meira var byggt upp var skiptingin ekki komin á. Svo verður skiptingin og frekari fjárfestingarþörf reynist vera úti á landi og þá er ekki hægt að láta fámennið eitt bera þann kostnað. Mikill og vaxandi munur á dreifikostnaði rafmagns er hvorki sanngjarn né í samræmi við vilja Alþingis. Við höfum nú kortlagt nokkuð vel hvaða leiðir kunna að vera færar til að eyða þessum mun og þurfum að taka afstöðu til þess hvaða skref eru raunhæfust og skynsamlegust.

Að lokum legg ég þunga áherslu á að við aukum skilvirkni í regluverki leyfisveitinga sem er tætingslegt, seinlegt og óskilvirkt. Þar liggja mikil tækifæri og ég er sannfærð um að aukinn skilningur er á nauðsyn þess að bæta hér úr svo við getum búið landsmönnum öllum viðunandi innviði. Starfshópur um endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum er að störfum. Sú vinna skiptir miklu máli og ég vil hér nefna auðvitað að það er ekki eins og við séum á núllpunkti. Við erum með mikla vinnu í gangi, margar aðgerðir í gangi og sem betur fer erum við á réttri leið þrátt fyrir að við þurfum aðeins að endurskoða ákveðna forgangsröðun og hafa trygga yfirsýn yfir þá vinnu sem hér er unnin.