150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[16:48]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni, meðaltöl segja bara hluta sögunnar en þau segja samt stóran hluta af þeirri sögu. Við hljótum að skoða hvað gögnin segja okkur um þróun ráðstöfunartekna. Á árinu 2018 kemur sömuleiðis fram að ráðstöfunartekjur hafa aukist að teknu tilliti til fjármagnstekna mest hjá neðstu tekjutíundinni. Þessi ríkisstjórn er að lækka skatta og hún gerir það þannig að það nýtist tekjulægri hópum berst. Þessi ríkisstjórn dregur úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu — og fyrir hvern er hún að gera það? Hún forgangsraðar þar öryrkjum og ellilífeyrisþegum. Þessi ríkisstjórn horfði sérstaklega til eldri borgara með það að hækka frítekjumarkið fyrir atvinnuþátttöku af því að það skiptir líka máli að fólk geti haldið áfram að sækja sér tekjur eftir að það kemst á aldur.

Horfum á það sem við erum að gera. Allt miðar í átt að auknum jöfnuði og aukinni hagsæld fyrir alla hópa. Fram hjá því er einfaldlega ekki hægt að líta, herra forseti, þegar við ræðum þessi mál. Það er ekki hægt að horfa fram hjá staðreyndum en um leið verðum við stöðugt að vera reiðubúin að taka kerfin okkar til endurskoðunar. (Forseti hringir.) Eitt af því sem kom fram hjá félags- og barnamálaráðherra er að skoða sérstaklega tekjulægsta hópinn í hópi aldraðra og hvernig hægt sé að koma til móts við hann. Það er fólkið sem á ekki fullan rétt í almannatryggingakerfinu.