150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[17:11]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki að spyrja að því hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, honum tekst ávallt að vekja okkur hin af værum svefni og kasta fram duldum sprengjum sem við fáum tækifæri til að spyrja hv. þingmann um. Hér talar hann mikið um að mikil þörf sé fyrir eflingu innviða; raflínur, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, og það sæti undrun að ekki hafi orðið meiri uppbygging á kerfum. Hér talar maður eins og hann hafi aldrei komið að stjórn þessa lands. Nýjasta málið sem hann talar um hér, furðumálið, er um miðhálendisþjóðgarð, mál sem hefur verið í undirbúningi frá árinu 2016 og hefur verið í kynningu um allt land í tvö ár. Hv. þingmaður talar um að þetta furðumál, eins og hv. þingmaður kýs að kalla það, eigi að draga úr lýðræðislegu valdi hjá sveitarstjórnarfólki. Undir það taka reyndar fleiri þingmenn. Ég tilheyri reyndar þeim hópi sem tekur undir með ályktun stjórnar Landverndar um að þetta frumvarp veiti í raun og veru sveitarstjórnarfólki of mikil völd (Forseti hringir.) á kostnað sérfræðiaðstoðar. En mig langar til þess að fá það fram hjá hv. þingmanni hvernig hann sjái fyrir sér framtíðarfyrirkomulag miðhálendisins ef þetta er ekki leið til þess.