150. löggjafarþing — 49. fundur,  20. jan. 2020.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin fram undan.

[19:43]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka þingmanni fyrir ræðu hans. Það sem sló mig í ræðu hans var umræðan í sambandi við fyrirtæki, að 75% þeirra vildu taka upp erlendan gjaldeyri en 5% væru á móti, eða vildu halda í krónuna, ef ég skildi það rétt, þingmaðurinn leiðréttir mig þá. Það sem mig langar að spyrja er hvort hann trúi því og sé þá að segja að eina leiðin fyrir þessi fyrirtæki sé að fara inn í Evrópusambandið og hvort hann telji það ráðlegt eins og staðan er í dag. Ég tel nú Evrópusambandið vera hálfgert brennandi batterí sem Bretar eru búnir að flýja. Og ef ekki, hvort hann sé þá að ræða um að hægt sé að taka upp einhvern annan gjaldmiðil og þá hvaða gjaldmiðil.

Hitt sem ég hef líka áhyggjur af er að þótt gott væri fyrir fyrirtæki að taka upp annan gjaldmiðil er kannski annað hvort það sé gott fyrir almenning. Ég er t.d. alveg sannfærður um að meiri hluti almennings vill ekki fara inn í Evrópusambandið. Evran er þar af leiðandi ekki á borðinu. Ég er að velta fyrir mér hvaða lausnir hann sjái í þessu máli. Síðan líka í sambandi við atvinnumálin, hvort hann sé sammála því að það sé óeðlilegt eins og kerfið er byggt upp í dag, bæði varðandi eldri borgara og öryrkja, að það sé verið að lemja á þeim, að þeir megi ekki vinna, skerða þá fyrir að vinna. Það hlýtur að sýna sig að því fleiri sem geta unnið og borgað skatta skili sér frekar en að hindra fólk, sérstaklega öryrkja, sem getur og vill vinna eitthvert smotterí í að vinna. Spurningin er: Hvaða álit hefur hann á þessu?