150. löggjafarþing — 50. fundur,  21. jan. 2020.

skaðabótalög.

430. mál
[18:15]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Hér er rætt um frumvarp til laga um breytingar á skaðabótalögum með síðari breytingum (launaþróun og gjafsókn). Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir að flytja þetta mál, fyrir fróðlega ræðu og líka ágætisgreinargerð. Ég hélt að þetta mál yrði kannski tekið fyrir í velferðarnefnd en svo er ekki. Ég vil samt sem áður, án þess að ég vilji lengja þennan fund mikið, virðulegi forseti, að það komi skýrt fram sem hér hefur verið sagt að það er afar mikilvægt að þeir einstaklingar sem lenda í slysi fái þær bætur sem þeir eiga rétt á fljótt og greiðlega og að viðmiðið sé auðvitað tímabilið frá óhappi og þar til bætur eru greiddar en ekki sé verið að greiða bætur, eins og hér kemur fram, langt aftur í tímann. Það er algjörlega óviðunandi og ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur í þinginu að taka mál af þessu tagi til meðferðar og skoða hver réttur einstaklinganna er.

Þegar einstaklingar eiga við tryggingafélög og fjármálastofnanir, eins og er í þessu tilfelli, er oft hátt upp á bakkann til að ná fram rétti sínum. Eins og kom fram í framsöguræðu hv. þingmanns hér áðan gefast margir upp á þeirri leið. Þess vegna er hér tillaga um gjafsókn. Mér finnst hún allra góðra gjalda verð og auðvitað þarf að skoða það mjög nákvæmlega hvort ekki þurfi að taka aðstæður fólks, samfélagslega stöðu, fjárhagslega stöðu, til greina strax í upphafi máls, að mál séu ekki dregin von úr viti þar til allar bjargir eru runnar úr greipum viðkomandi aðila. Mér finnst ljótt og vont að heyra að slíkt skuli gerast og það er mjög mikilvægt fyrir viðkomandi nefnd að skoða þessi mál vel, skoða afkomu þessara tryggingarsjóða, hvernig þeir fara með það tryggingafé sem þar er inni og hvert hlutfall bóta til þeirra sem eiga rétt á þeim er í raun af þeim skaða sem hlotist hefur.

Ég vil enn og aftur nota tækifærið til að þakka fyrir frumvarpið. Það er skref í rétta átt sem við hefðum átt að vera búin að stíga fyrir löngu.