150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Til er fólk sem finnst frelsið ekki skipta neinu sérstöku máli. Það er ákveðin afstaða. Sjálfum finnst mér frelsið skipta næstum því öllu máli en svo er til fólk sem talar um mikilvægi frelsisins á tyllidögum, t.d. í kosningabaráttu, en sér sér hins vegar ekki fært að styðja frelsismálin þegar þau eru lögð fram. Það má spyrja: Er mikilvægt eða er það ekki mikilvægt að íbúar Íslands hafi frelsi til að syngja? Ef ekki, ókei, þá er það ákveðin afstaða. En sá hlýtur að styðja frumvarp Pírata sem er til umræðu á eftir um þjóðsöng Íslendinga sem finnst frelsi skipta máli

Er mikilvægt eða er það ekki mikilvægt að íbúar landsins geti bruggað bjór á eigin heimili til eigin neyslu án hótana um sex ára fangelsisvist? Ef ekki, ókei, þá er það ákveðin afstaða. En sá skal styðja annað frumvarp Pírata sem er til umræðu á eftir um heimabruggun sem finnst frelsi mikilvægt.

Er mikilvægt eða er það ekki mikilvægt að íbúar landsins hafi sjálfsákvörðunarrétt yfir eigin líkama og ákveði alfarið sjálfir hver gerir hvað við þann líkama? Ef ekki, ókei, þá er það ákveðin afstaða en sá eða sú sem segist aðhyllast einstaklingsfrelsi, jafnvel bara í grundvallaratriðum, hlýtur að styðja frumvarp Pírata um afglæpavæðingu vímuefnaneyslu. Sá eða sú sem styður það ekki hefur ekki efni á því að predika yfir öðrum um einstaklingsfrelsi.

Hér hef ég aðeins talið upp nokkur frelsismál Pírata sem hefur reynst þrautin þyngri að afla stuðnings við úr átt þeirra sem gaspra hæst um frelsið á tyllidögum, nefnilega Sjálfstæðisflokksins. Þar á bæ virðist talað um frelsið sem einhverja rómantíska draumsýn úr fornsögum sem komi þó ekki neinu í nútímanum og raunveruleikanum við. Ég kalla eftir því að sjálfskipaðar frelsishetjur Sjálfstæðisflokksins taki eitthvað af þeirri orku sem fer í að opinbera aðra sem svokallaða vinstri menn og nýti hana til að vinna með Pírötum og öðrum að vegi og virðingu frelsisins sem við flest hér segjumst í það minnsta elska svo heitt.