150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:36]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka þátt í umræðu í þingsal um stöðu hjúkrunarheimila og Landspítala. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta:

„Einnig verður hugað að því að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila …“

Samkvæmt minni vitneskju hefur það ekki verið efnt heldur er miklu frekar takmarkað það fjármagn sem hjúkrunarheimilin eiga rétt á vegna aukinnar hjúkrunar íbúanna sem þar búa. Auk þessa eru greiðslur lækkaðar að raunvirði þriðja árið í röð og sætir það furðu þar sem vitað er að einstaklingar sem nú komast inn á hjúkrunarheimili búa við mun verri heilsu en fyrr. Þröskuldurinn er orðinn hærri og erfiðara er að komast inn á hjúkrunarheimili þrátt fyrir augljósa þörf.

Hjúkrunarheimilin eru mikilvægur hlekkur í heilbrigðiskerfinu og þá erum við komin að spurningu um hvernig hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að auka gagnsæi í málaflokknum en algjört ógagnsæi má heita í framsetningu fjárlaga frá ári til árs varðandi daggjöld öldrunarstofnana. Það þarf að liggja skýrt fyrir hversu mikla hjúkrunar- og lækningaþjónustu hjúkrunarheimilin eiga að hafa. Þetta á sérstaklega við þegar hjúkrun hefur aukist — hjúkrunarþyngd eins og það er kallað. Hún hefur aukist og ég veit að heilbrigðisstarfsfólk innan hjúkrunarheimilanna hefur oftar en ekki gengið lengra en skylda þess kveður á um til þess eins að sinna og hlúa að íbúum heimilanna.

Embætti landlæknis hefur einnig bent á að verulega þurfi að bæta mönnun fagstétta innan heimilanna og vegna þessa verður til sú tilhneiging að senda íbúa hjúkrunarheimila í auknum mæli inn á spítala. Þetta hefur orðið til þess að hinn svokallaði fráflæðisvandi, sem er ekki gott orð, er veruleiki sem veldur því að heilbrigðisstarfsmenn hjúkrunarheimila geta ekki hlúð að veikustu íbúunum sínum af öryggi.

Ég nefni þetta þar sem staðan virðist verst á höfuðborgarsvæðinu. Flestir þeir sem þurfa á hjúkrunarheimili að halda liggja fastir inni á Landspítala sem er dýrasti kosturinn. Að þessu sögðu geri ég mér líka grein fyrir því að gera þarf betur gagnvart heimaþjónustu og hjúkrun og að þetta verður að haldast í hendur.

Að lokum vil ég nefna að við í þingflokki Miðflokksins höfum enn á ný lagt fram tillögu um staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús og að samhliða þeirri athugun verði kannaður fýsileiki þess að nýta byggingar Landspítala við Hringbraut undir aðra heilbrigðisþjónustu en er þar nú, t.d. dvalar- og hjúkrunarheimili. Sumir leyfa sér reyndar að segja að stærsta hjúkrunarheimili landsins sé nú þegar við Hringbraut.

Ég þakka enn á ný hæstv. ráðherra fyrir að taka vel í þessa sérstöku umræðu og ég mun fylgjast áhugasöm með svörum hennar sem og allra þeirra sem hér eru og vilja leggja málinu lið.