150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[15:53]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnatíma í gær lét hæstv. heilbrigðisráðherra þau orð falla að sem betur fer væri til stefna um heilbrigðismál sem samþykkt hefði verið á Alþingi í júní á síðasta ári og notið hefði stuðnings þingmanna sem væru „þeirrar skoðunar að heilbrigðismál væru málaflokkur sem væri ekki sérstaklega vel til þess fallinn að geyma í skotgröfum heldur væri betra að um hann gilti samstaða til lengri framtíðar“.

Þessi orð eru svo sem í takt við þær skammir sem fagfólk í heilbrigðiskerfinu hefur fengið frá ráðherra fyrir að tala opinberlega um vandann sem er til staðar. Það virðist nefnilega sem dauðaleit standi yfir að blórabögglum utan þess hóps sem raunverulega ræður för og ber þar með ábyrgð á stöðunni. Staðreyndin er sú að það var ekki síst vegna meðferðar heilbrigðisráðherra á málefnum sem varða öldrunarmál, þar með talin hjúkrunarheimili, sem við í Viðreisn sátum hjá í atkvæðagreiðslu um heilbrigðisstefnuna. Þó að hægt sé að taka undir margt sem þar kom fram er enn hægt að gera veigamiklar athugasemdir vegna þess sem ekki er þar.

Öldrunarþjónusta er ekki hluti af heilbrigðisstefnu ráðherra. Orðið hjúkrunarheimili kemur aldrei fyrir enda kom fram í umsögn Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, sem í eru flest hjúkrunarheimili, gagnrýni á það samráðsleysi sem viðhaft var við gerð stefnunnar. Þeirri gagnrýni var svo svarað af hálfu heilbrigðisyfirvalda, m.a. á fundum velferðarnefndar, á þann hátt að það kæmi að þessu síðar. Nú er spurningin: Hvenær kemur að hjúkrunarheimilunum? Hvenær kemur að öldrunarmálunum? Á maraþonfundi velferðarnefndar með hinum ýmsu fagaðilum innan heilbrigðiskerfisins í síðustu viku kom m.a. fram hjá fulltrúum Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu að þeim þætti lítið leitað til þeirra um ráð og hugmyndir að lausnum varðandi öldrunarmál, t.d. samspil hjúkrunarheimila, heimaþjónustu og sjúkrahúsþjónustu, þann mikla vanda sem við stöndum frammi fyrir núna.

Við vitum að þessir aðilar eru almennt lausnamiðaðar enda eiga þeir ekki bakhjarla í ríki eða borg. Þeir hafa hins vegar yfirgripsmikla þekkingu og yfirgripsmikla reynslu. (Forseti hringir.)

Ég hvet hæstv. ráðherra til að leita ráða hjá þessum aðilum sem best þekkja til. Þetta hljóta að vera bandamenn okkar í þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir. Þetta ættu a.m.k. að vera bandamenn okkar og ég ætla að ljúka máli mínu á að vísa í orð (Forseti hringir.) hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, formanns velferðarnefndar, sem las hér upp úr minnisblaði frá þessum sömu samtökum.