150. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2020.

staða hjúkrunarheimila og Landspítala.

[16:05]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Það hefur komið skýrt fram og er öllum ljóst að öldrun þjóðarinnar er hluti af því sem eykur álagið í heilbrigðiskerfinu almennt. Það er margt gott verið að gera og þessi ríkisstjórn og stjórnvöld undanfarinna ára hafa lagt mikla áherslu á að byggja upp hjúkrunarrými, hvíldarrými, styrkja heimahjúkrun, fjölga rýmum fyrir heilabilaða og annað, sem er allt mjög gott en tekur tíma. Öll þessi góðu úrræði munu ekki koma í veg fyrir þörf á hjúkrunarrýmum. Sú þörf er gríðarleg og hún sýnir sig í því að hjúkrunarþyngdin er alltaf að aukast. Þetta er að verða meira og meira sjúkrahúsþjónusta, liggur mér við að segja.

Þess vegna skiptir miklu máli að hjúkrunarheimilum sé gert kleift að sinna sem flestum sem best svo að það fólk sem er í hjúkrunarrýmum þurfi ekki að fara inn á bráðadeildir spítalanna. Miðað við þá hjúkrunarþyngd sem er í dag eru hjúkrunarheimilin langódýrasta úrræðið sem við höfum. Því tel ég að á meðan við erum að vinna að öllum þeim mikilvægu lausnum sem er verið að vinna að skipti gríðarlega miklu máli að nýta þær lausnir sem við höfum fljótt og vel, sem eru laus pláss í núverandi hjúkrunarrýmum, bæði hér innan höfuðborgarsvæðisins og í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins, sem ég held að gæti létt álagið mikið, þar sem sólarhringurinn á bráðadeild kostar 210.000 kr., á lyflækningadeild 120.000–150.000 kr., á öldrunardeild 75.000 kr. miðað við um 35.000–40.000 á hjúkrunarheimilunum. Þannig að ég held að við ættum að reyna að nýta þau lausu pláss sem eru nú þegar á suðvesturhorninu til þess að fara vel með fjármunina í heilbrigðiskerfinu.