150. löggjafarþing — 53. fundur,  28. jan. 2020.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur fyrir spurninguna. Hún fagnar því að við séum sammála um flest það sem kemur fram í þessari þingsályktunartillögu og það er alveg hárrétt hjá henni. Ég er að sjálfsögðu mjög ánægður með margt af því sem kemur þar fram án þess að hafa lesið það allt upp hér áðan. Ég renndi yfir það sem ég var hrifnastur af. Það er alveg rétt, margt af því sem þarna er horfir til framfara. Hins vegar hef ég áhyggjur af gjörðunum því að falleg orð á blaði eru lítils virði ef þeim fylgir ekki að því sem þar er lýst sé hrint í framkvæmd, eins og þetta með verkefni út á land o.s.frv. Ég hlakka til að sjá framkvæmdina á þessu og tala fyrir því að þessu verði hrint í framkvæmd svo að merki sjáist um það.

Hv. þingmaður talaði um hverjir væru fulltrúar fólksins í landinu. Ég tók þannig til orða að fulltrúar minni sveitarfélaga, sannarlega ekki allra, sem komu fyrir nefndina hafi margir hverjir verið andvígir lögþvingaðri sameiningu svo að því sé haldið til haga. Auðvitað komu ekki allir fyrir nefndina og ekki voru allir á einu máli en mörg minni sveitarfélög lýstu sig andvíg lögþvingaðri sameiningu. Ég vil meina að ekki hafi verið hlustað á þau. Ég bætti því síðan við að fulltrúar annarra sveitarfélaga sem væru stærri (Forseti hringir.) svo að lögþvingunin tæki ekki til sumra þeirra, og ég get nefnt dæmi, hafi varað við því að þetta yrði þvingað fram.