150. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2020.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Frú forseti. Það er mikilvægt í lýðræðislegum þjóðfélögum að það megi gagnrýna málaflokka og æðstu stjórnendur ríkisins. Það hefur því miður verið venja hér á landi að þegar gagnrýni kemur fram eru borgarar og þingfólk skammað og gefið í skyn að þjóðin sé á einhvern hátt og vanþakklát. Heilbrigðiskerfið hefur legið undir gagnrýni síðustu mánuði og árin og trekk í trekk hefur verið bent á að það vanti fjármagn. Vissulega er heilbrigðiskerfið ekki eini málaflokkurinn þar sem vantar fjármagn en allt of oft eru svörin á þá leið að það sé nóg fjármagn og framlög hafi hækkað. Það sem skýtur skökku við í þessu er að það gleymist að taka inn í reikninginn að í kjölfar fjármálahrunsins 2008 voru framlög í alla málaflokka skorin gífurlega niður, með því loforði að þetta yrði bara tímabundið ástand.

Hæstv. heilbrigðisráðherra benti á um daginn að framlög til Landspítalans hefðu aukist um 12% á þremur árum en við þurfum að hafa í huga að slíkar prósentutölur og loforð hafa litla þýðingu ef það er ekki sett í rétt samhengi. 12% hækkun á framlögum á þremur árum til Landspítalans hljómar vissulega mjög vel í eyrum kjósenda. En ef við setjum þetta í samhengi við eftirfarandi tölfræði þá skýtur skökku við. Þetta hljómar vel ef ekki hefði viljað svo til að frá 1. janúar 2017 til 30. september 2019 fjölgaði landsmönnum úr 338.450 í 362.860 eða um 7,2%, ef íbúum 70 ára og eldri hefði ekki líka fjölgað um 7,2% og ef ekki hefði verið verulega uppsöfnuð fjárþörf hjá Landspítalanum áður en þessi hækkun framlaga kom til og ef fjöldi ferðamanna hefði ekki aukist um þrefaldan fjölda landsmanna á þessum þremur árum og ef Landspítalinn hefði ekki þurft að bera að fullu kostnað vegna hluta þessara ferðamanna.

Það er gríðarlegt álag á Landspítalanum. Skammir og endurtekning á því að þetta sé í lagi breytir því ekki að það hafa orðið alvarleg slys á bráðamóttökunni sjálfri. Erum við ekki samfélag sem vill bjóða upp á heilbrigðiskerfi og starfsumhverfi fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem gerir það að verkum að það geti sinnt starfi sínu á sem bestan hátt? (Forseti hringir.) Þjóðin tók á sig skell í kjölfar fjármálahrunsins og ég trúi ekki öðru en að þolinmæði hennar sé senn á þrotum.