150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[12:13]
Horfa

Njörður Sigurðsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa umræðu. Það eru margir fletir á þessu máli og mig langar að ræða um tekjutap vegna loðnubrests fyrir þau samfélög sem hafa byggt upp myndarlega starfsemi í kringum loðnuvinnslu og mögulegar leiðir til að mæta slíku tekjutapi ef loðnubresturinn verður viðvarandi. Það er ljóst að loðnubrestur hefur veruleg áhrif á samfélögin en árið 2018 var útflutningsverðmæti loðnu næstum 18 milljarðar kr. Tekjutap ríkisins er mikið en mig langar að beina sjónum að áhrifum á samfélögin sem reiða sig á loðnuvinnslu.

Í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir áramótin var fjallað um þessi áhrif. Ekki eingöngu varð gífurlegt tekjutap árið 2019 hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum heldur líka hjá fyrirtækjum sem þjóna sjávarútveginum, t.d. netagerðum, löndunarþjónustu og öðrum fyrirtækjum sem þjónusta sjávarútveginn á þeim stöðum þar sem unnið er með loðnu. Til samanburðar má nefna að framkvæmdastjóri Tandrabergs, löndunarþjónustu á Neskaupstað, taldi að samdráttur á milli áranna 2018 og 2019 hefði verið um 35%. Áhrif á starfsfólk sem vinnur við loðnuvinnslu eru jafnframt mikil, allt frá tekjutapi til atvinnumissis. Í sömu frétt Ríkisútvarpsins kemur fram að tekjur starfsmanna hafi lækkað um 10–20% á milli ára. Fyrir suma getur það munað allt að milljón krónum á ársgrunni.

Sveitarfélög verða líka af miklum tekjum við loðnubrest. Minnkandi tekjur íbúa leiða af sér lægri útsvarstekjur. Þá lækka einnig tekjur sveitarfélaganna af hafnargjöldum. Í skýrslu sem gerð var fyrir Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi kom fram að hjá fimm sveitarfélögum var tekjutap vegna þessa frá 23,5 milljónum og upp í 280 millj. kr. Því er ljóst að tekjutapið hefur gífurleg áhrif á þau samfélög sem reiða sig á loðnuvinnslu, hvort sem litið er til sveitarfélaga, fyrirtækja eða starfsmanna. Ef um áframhaldandi loðnubrest verður að ræða er rétt að velta upp þeim möguleika hvort ríkið geti á einhvern hátt mætt þessu tekjutapi með mótvægisaðgerðum. Við höfum fyrirmyndir um slíkt þegar árið 2007 var farið í nokkuð umfangsmiklar mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar á þorskkvóta og var tæpum 14 milljörðum kr. varið í þær yfir nokkurra ára tímabil. Mótvægisaðgerðirnar á landsbyggðinni á sínum tíma voru fjölbreyttar, allt frá innslætti gamalla manntala til vegaframkvæmda og endurbóta á fasteignum ríkisins, og skiptu verulegu máli, einkum fyrir starfsfólk sem misst hafði störf sín við sjávarútveg.

Herra forseti. Það er mikið högg fyrir þau samfélög sem reiða sig á loðnuvinnslu þegar tekjur dragast svo mjög saman. Þó er rétt að halda til haga að loðnubrestur kemur misjafnlega niður á samfélögum en sem dæmi hefur aukning makrílkvóta vegið upp á móti tekjutapi á nokkrum stöðum. Ein leið til að mæta þessu tekjutapi væri að ríkisstjórnin færi í mótvægisaðgerðir eins og gert var árið 2007. Þá mætti jafnframt skoða að veiðigjald eða hluti þess renni til sveitarfélaga til uppbyggingar á fjölbreyttri atvinnustarfsemi og það sé þá í höndum sveitarfélaganna sjálfra að nýta fjármagnið.