150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

nýting og vistfræðileg þýðing loðnustofnsins 2000 - 2019, munnleg skýrsla sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

[12:36]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Í skýrslunni kemur margt fram og annað ekki. Svörin og skýrslan í heild sinni undirstrika mikilvægi öflugra og fjölbreyttra hafrannsókna og að þær séu fjármagnaðar með fullnægjandi hætti. Það þarf einnig að beita nýjum nálgunum vegna breyttrar gönguhegðunar, lífssögu og hátta loðnustofna líkt og stofna margra annarra sjávardýra. Hér þarf líka að koma til aukið samstarf rannsóknarstofnana, Hafrannsóknastofnun og fleiri stofnanir geta komið að því. Þannig náum við líka að skapa fjölbreyttari sýn og nýja vinkla á viðfangsefnið.

Það er kvikt og dýnamískt samspil tegunda þar sem síbreytilegir umhverfisþættir spila inn í. Gríðarlegar sveiflur eru í staðsetningu á farleiðum loðnustofna og líklega lífshátta. Það kristallast vel í þeim gögnum sem lögð eru fram í skýrslunni. Sterkt samband var á milli magns veiddrar loðnu og þorsks áður en tegundin var kvótasett. Þannig gáfu veiðitölur vísbendingar um stofnstærðir og jafnvel hvers var að vænta með stöðu þorskstofna. Ég vil leggja mikla áherslu á mikilvægi rannsóknaskipanna okkar, að þeim sé haldið úti og ekki síður á gott samstarf við útgerðirnar sem stunda loðnuveiðar og veiðar á öðrum uppsjávartegundum.

Ég vil í tengslum við þetta rifja aðeins upp svar við fyrirspurn sem ég lagði fram á löggjafarþingi 2016–2017 til þáverandi ráðherra um úthaldsdaga rannsóknarskipa á vegum Hafrannsóknastofnunar og fleiri spurningar. Ég fékk virkilega greinargóð svör þar sem var farið yfir úthaldsdaga og verkefni þeirra, t.d. við mælingar á stærð loðnustofnsins, sjávarrannsóknir, mælingar á veiði og hrygningarstofni loðnu að vetrarlagi o.s.frv. Var þetta yfir langt árabil, 2000–2016. Einnig spurði ég ráðherra eftir því hvort hún teldi að nægt fé væri veitt til rannsókna hjá Hafrannsóknastofnun og svarið var svo sem ekki flókið, svo var ekki. Það þyrfti verulegt viðbótarfjármagn til slíkra rannsókna, svo ég vísi nú í þessa ágætu fyrirspurn og ekki síður svörin.

Aftur að skýrslunni. Hér var rakin ágætlega af ráðherra áðan staðan og framtíðarhorfur varðandi stofnstærð og veiðar og kom fram að veiðistofn samanstandi núna mest af einum árgangi, 85–90% hverju sinni, og hann hrygnir mest við þriggja ára aldur o.s.frv. og síðan aðeins um hvernig mælingar fara fram. En það kemur líka fram í skýrslunni að mælingar á ungri loðnu, þ.e. loðnu á fyrsta ári, hafi ekki farið fram frá árinu 2003 þegar síðast var farið í svokallaðan seiðaleiðangur. Seiðaleiðangur var aflagður í sparnaðarskyni en hann var farinn árlega frá árinu 1976 og til 2003 til að meta magn seiða nytjastofna við Ísland. Það er ekki gott að svona mikilvægar rannsóknir séu lagðar af og skapar enn meiri óvissu um stöðu mála. Horfur eru mjög slæmar nú varðandi næstu vertíð, eins og kom fram, það eru mjög dökkar horfur að óbreyttu. Við vonum að sjálfsögðu það besta. Í ljósi þess hve loðnuveiðar eru þýðingarmiklar fyrir þjóðarbúið er afar slæmt hve mikil óvissa er sífellt uppi um hvernig staðið verði að loðnuleit og með hve umfangsmiklum og vönduðum hætti ár hvert. Verða rannsóknarskip til staðar og fjármunir til að halda þeim úti við rannsóknir? Hverjir fleiri taka þátt í þeim rannsóknum? Í ljósi mikilvægis þarf að koma þessu í fastari, ákveðnari og betri skorður til framtíðar. Það á líka við um rannsóknir á fleiri tegundum, bæði nytjategundum og öðrum, samspili þeirra og ekki síst hvernig útbreiðsla tegunda og vistkerfa hafsins er að breytast.

Vil ég nú aðeins koma að því. Við þekkjum makrílinn, sem hefur vissulega komið í staðinn fyrir ýmislegt, sem hefur fært sig hingað. Við þekkjum fleiri tegundir sem hafa virkilega verið að flytja sig til og margar kaldsjávartegundir sem hafa þá jafnvel verið og eru í vandræðum eins og lúðan sem er að færast norðar. Við erum að fá aðrar suðlægari tegundir inn á landgrunninn. Ég get nefnt ósakolann eða flúndru sem ég fann að fyrsta hrygningin var við Ísland árið 2001 og sem nam síðan land í kringum landið á næstu árum á eftir. Við getum talað um skötuselinn sem hefur síðan líka einnig breiðst út og þessar tegundir, jafnvel þótt þær séu þekktar með ákveðnu lífsmynstri þar sem þær áður voru, geta komið fram sem algerlega nýjar skepnur með nýjum háttum og fæðuvali og óþekktum áhrifum á þau lífríki og vistkerfi sem þær nema land í, eins og við þekkjum með skötuselinnn. Til að mynda BioPol á Skagaströnd stundaði fagrannsóknir á honum á mismunandi landsvæðum þar sem var nánast um gjörólíka hætti að ræða eftir hvar var borið niður og ólíkt því sem var þekkt hjá tegundinni annars staðar, svo ég nefni nú dæmi um það.

Við erum sem sagt nokkuð berskjölduð í veiðiráðgjöfinni vegna takmarkaðrar þekkingar, ekki síst í ljósi þess hve margt er að breytast hjá okkur og kannski höfum við verið of mikið njörvuð niður í að vera að beita sífellt sömu aðferðum, sömu nálgunum, og ég get ekki annað en ítrekað mikilvægi þess að við skoðum fleiri nálganir, fleiri leiðir til að nálgast þessi viðfangsefni. Skýrslan sem hér er til umræðu er gagnleg, eins langt og hún nær, en vekur ekki síður athygli á því hve takmörkuð vitneskja er til staðar um hvað er að gerast í sjávarvistkerfum okkar umhverfis landið. Okkur vantar meiri þekkingu á áhrifum mismunandi veiðarfæra á lífríki sjávar og einstökum tegundum eins og loðnu. Er til að mynda verið að valda óþarfa raski eða dauða sjávardýra og fiska með einhverjum veiðarfærum? Hafrannsóknastofnun og ráðuneytið hafa svo sem verið fremur sinnulaus gagnvart slíku, samanber opnun á friðuðum svæðum aftur fyrir dragnótaveiðum. En svona til að draga þetta saman: Hér þarf að gera miklu betur í rannsóknum, bæði náttúrunnar sjálfrar vegna og ekki síður mikilvægis margvíslegra nytjategunda fyrir Íslendinga og byggðarlög víðs vegar um landið og núverandi staða er grafalvarleg.