150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

Alþingi sem fjölskylduvænn vinnustaður.

334. mál
[15:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ásgerði K. Gylfadóttir kærlega fyrir að leggja þetta mál fram vegna þess að þegar þingmenn tala um störf þingsins á einhvern svona hátt er mjög stutt í óvægið umtal og villandi, á köflum beinlínis lygi. Ég ætla aðeins yfir það á eftir en fyrst vil ég hafa á hreinu að þetta mál og hugmyndir um fjölskylduvænna Alþingi snýst ekki um hagsmuni þingmanna, það snýst ekki um meðaumkun með þjáningum þingmanna, hvað þeir eiga bágt eða hvað þeir fá lítinn tíma með fjölskyldu sinni, heldur snýst það um aðgang almennings að löggjafarsamkundunni og getu þingmanna til að sinna störfum sínum. Það er það sem það snýst um í mínum huga og fer beinustu leið út í jafnréttismálin af þeim sökum.

Þingmenn eru ekki einhver önnur dýrategund en kjósendur. Þetta er sama dýrategundin, reyndar sama þjóðin, sama ríkisfangið sem þarf til að kjósa og til að bjóða sig fram. Svo gott sem hver sem er getur boðið sig fram, með örfáum takmörkunum, og við erum flest hérna almennir borgarar. Alls konar almennir borgarar hafa boðið sig fram og komist á þing. Ég held að flest okkar hafi verið hissa í fyrsta sinn sem við komumst inn á þing. Ég verð a.m.k. að segja að ég var mjög hissa, það kom mér á óvart að manneskja í minni stöðu gæti orðið hv. þingmaður á þeim tíma, enda kannski að bjóða mig fram fyrir skrýtinn flokk sem var ekki með gott fylgi á þeim tíma. Það var reyndar stórgott fylgi þá en minna en við höfum blessunarlega fengið að venjast síðan þá.

Vegna þess að þeir 63 þingmenn sem eru kjörnir eiga að vera einhvers konar þverskurður af þjóðinni gengur ekki að settar séu slíkar takmarkanir að heilu þjóðfélagshópunum sé beinlínis meinað að starfa hér samkvæmt sinni bestu getu, bara vegna þess að Alþingi sjálft krefst þess að hafa hér eins ófjölskylduvænt umhverfi og mögulegt er vegna þess að það virkaði svo vel 1950. Alþingi þróaðist og fyrirkomulagið hérna þróaðist yfir áratuga tímabil út frá – ég ætla bara að segja það — miðaldra karlmönnum með uppkomin eða engin börn og konu heima, körlum sem vildu vera sem minnst heima hjá sér. Þrátt fyrir að samfélagið batni og breytist og það verður sjálfsagt að konur séu á þingi — og var næstum orðið sjálfsagt að þær næðu heilum helmingi af þinginu, því miður ekki enn alveg komin þangað — stendur eftir fyrirkomulag sem gengur út frá því að hér séu einstaklingar sem hafi ekki fjölskylduskyldum að gegna, hvort sem það eru karlar, konur eða önnur kyn. Í dag er ætlast til þess, með réttu, að karlmenn taki þátt í barnauppeldi og annarri umönnun á heimilinu. Konur þurfa líka að gera það og gera það enn í meira mæli eins og við þekkjum. Þessi hluti af lífinu gufar ekkert upp við það að maður verði þingmaður. Þetta er enn til staðar og ef við ætlum að búa við Alþingi þar sem jafnrétti er á borði fyrir karlmenn, konur og fólk af öðrum kynjum verður þetta þing að verða fjölskylduvænna en það var 1950. Það segir sig sjálft og um það snýst málið, virðulegi forseti, að einstæð kona úti á landi geti boðið sig fram, að skilaboðin héðan séu ekki þau, eins og kom stundum fram í verri ræðum sumra hv. þingmanna, að maður eigi bara að vita þetta fyrir fram. Maður á að vita þegar maður býður sig fram að þetta taki allan manns tíma. Þau skilaboð eru: Ef þú ert einstæð kona úti á landi eða einstæð kona nokkurs staðar eða einstæður karlmaður, eða hvað sem er, með barn skaltu ekki bjóða fram.

Og þau skilaboð, virðulegi forseti, þykja mér algjörlega ótæk. Þau eru algjörlega ótæk.

Kannski þarf miklu að breyta til að við náum því alveg að hægt sé að vera einstætt foreldri og þingmaður og sinna starfinu af öllum sínum mætti. Kannski er mjög langt í það en við eigum ekki að láta eins og þetta sé allt í lagi eins og það er. Það getur orðið fjölskylduvænna þótt það verði aldrei fullkomlega fjölskylduvænt. Þetta verður alltaf erfitt og tímafrekt starf. Það er í sjálfu sér sjálfsagt að verulegu marki en við eigum samt að sýna viðleitni til að breyta fyrirkomulaginu á vinnubrögðunum í takt við tímann þegar tíminn er að breyta samfélaginu í grundvallaratriðum, nefnilega þegar kemur að jafnrétti kynjanna og hlutverki fólks í einkalífi sínu sem áður byggðist að verulegu leyti út frá kyni en gerir það vonandi, og sem betur fer, ekki lengur.

Ég hugsa að flestir þingmenn sem hafa mikinn metnað fyrir starfi sínu geti alveg haldið hér langar ræður og talið upp langan lista yfir hluti sem er ekki gert ráð fyrir neins staðar í neinu dagatali. Undirbúningur fyrir nefndastörf skorar þar frekar hátt hjá mér og það að ætla í alvörunni að lesa hverja einustu umsögn af alúð og natni við hvert einasta mál sem er fjallað um í nefndum sem við störfum í. Það er mikil vinna og krefst þokkalegs tíma. Það er ekki erfiðisvinna, manni er ekki illt í bakinu eftir það en það kostar tíma sem er ekki gert ráð fyrir. Ég er ekkert að kvarta. Ég kvarta hvorki undan því að lesa umsagnir né yfir því að lesa þær ekki. Ég kvarta ekki undan tímanum sem fer í það. Ég er bara að segja að þótt ég sé þingmaður er samt dýrategundin mín, þingmannsdýrategundin, líka bara með 24 klukkutíma í sólarhringnum. Dýrategundin mín þarf líka að sofa og borða og hún á líka börn.

Þá er að velja. Við getum haft þetta eins og þetta er, við getum látið eins og þetta sé allt í góðu. Þá kemur það niður á starfi þingmanna. Er það það sem almenningur vill? Ég held ekki. Ég held að almennt sé viðhorfið að það eigi að fækka þingmönnum, lækka launin þeirra og gera þeim allt erfiðara byggt á þeim algjöra misskilningi að þingmennskan sé eitthvert letidjobb — sem það getur verið. Ef þingmaður er metnaðarlaus og nennir ekki að gera neitt getur þingmaður gert það, sér í lagi ef hann er í 16–21 manns þingflokki í stjórn. Þá er það ábyggilega mjög auðvelt en ég veit það ekki, ég hef aldrei verið í þannig stöðu. Stærsti þingflokkurinn sem ég hef verið í telur sex manns og er þingflokkur Pírata í dag. Ég hef aldrei verið í flokki sem er í stjórn eða hefur verið í stjórn. Það er alveg hægt að vera slíkur þingmaður, í stjórnarmeirihluta, stórum þingflokki, alveg hægt að útbýta verkefnum eða eitthvað, leggja fram svo gott sem engin mál, kannski eitt á gjörvöllum þingferlinum, kannski nokkur í viðbót sem varaformaður eða formaður nefndar, eitthvað því um líkt. Það er ekkert mál en ég hélt að við vildum auðvelda þingmönnum að gera meira. Ég hélt að kvörtunin frá almenningi væri sú að við gerðum ekki nóg. Ef það er þannig segir það sig sjálft að þingmenn þurfa meiri tíma, meiri tól og betri aðstæður til að sinna vinnu sinni af heilindum og af þeim fulla þrótti sem þeir eiga að geta. Það er ótrúlegt virðingarleysi fyrir tíma fólks á þinginu og hefur verið að mínu mati alltaf, lengi vel vegna þess að samfélagsgerðin bauð upp á það á sínum tíma, en að mínu mati er svo einfaldlega ekki lengur. Þetta snýst ekki um vorkunn fyrir þingmönnum eða hvað við eigum bágt. Þetta snýst um að við getum sinnt starfi okkar og ekki verið útilokuð fyrir það að vera t.d. foreldrar eða þurfa að sinna öðrum skyldum í einkalífi okkar.

Nú ætla ég á seinustu mínútunum, þar sem ég hef ekki mikinn tíma, að fara aðeins yfir eina af verstu blaðaumfjöllunum sem ég hef nokkurn tíma lesið í lífinu. Ég verð eiginlega að sýna hana myndavélinni. Hér er mynd af hv. 1. flutningsmanni þessarar tillögu og fyrirsögnin er, með leyfi forseta:

„Þingmenn væla yfir kokteilboðum og vilja enn meira frí.“

Þetta er ein kostulegasta vitleysa sem ég hef lesið um þingið í lífinu. Þetta er reyndar liður sem heitir Sandkorn og birtist í DV í nóvember á seinasta ári og þarna er því beinlínis logið að þessi tillaga feli í sér að þingmenn þurfi að komast í fleiri kokteilboð eða fá lengra frí.

Virðulegur forseti. Þingið er ekki að störfum þegar við erum í hinu svokallaða fríi, þ.e. á sumrin eða um jólin. Það er þannig ekki hægt að dreifa vinnuálagi þingmanna yfir á sumrin vegna þess að þá er þingið ekki að störfum. Vinnuálagið er þegar þingið er að störfum og ég er ekki að kvarta undan því, ég er bara að segja að það eru bara 24 klukkutímar í sólarhringnum. Það eru fleiri skyldur í lífi þingmanns en þessi vinna, sama hversu ólíkt annarri vinnu það verður.

Þessi hryllilega blaðaumfjöllun finnst mér svolítið grípa þá staðreynd að mér finnst að þingmenn þurfi að vera duglegri, og fjölmiðlar líka, við að lýsa því hvernig þingstarfið raunverulega er, ekki vegna þess að þingmenn eigi svo bágt heldur vegna þess að það skiptir máli að fólk viti hvernig löggjafarsamkundan virkar. Það skiptir máli að fólk sé upptekið af öðrum áhyggjum en þeim að þingmenn séu í kokteilboðum þegar þeir eru það ekki. Það skiptir máli að þeir séu uppteknir af því að þingmenn séu ekki að sinna vinnunni sinni vegna þess að hérna sitja þrír hv. þingmenn úti í sal þegar það er ekki vandamál. Það er ekki hérna sem við skrifum frumvörpin, það er ekki hérna sem við tölum í símann eða erum á fundum úti í bæ. Það er eðlilegt að fáir séu í þingsal. Af hverju segjum við það ekki bara? Af hverju segja fjölmiðlar það ekki bara? Jú, vegna þess að það er lítil meðvitund um það vegna þess að það er ákveðin tilhneiging til að reyna að láta allt snúast um líðan eða hagsmuni þingmanna. Þetta snýst ekki um það. Þetta er löggjafarsamkunda lýðveldisins. Þetta snýst um hana. (Forseti hringir.) Þetta snýst um aðgang almennings, borgarans, til að bjóða sig fram inn á þessa samkundu, láta í sér heyra og gera gagn þrátt fyrir að vera hugsanlega jafnvel einstætt foreldri.