150. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2020.

almenn hegningarlög.

422. mál
[15:18]
Horfa

Flm. (Una Hildardóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Frumvarp þetta var lagt fram á 149. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu og er nú lagt fram aftur. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs; Ari Trausti Guðmundsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Orri Páll Jóhannsson, Ólafur Þór Gunnarsson og Steinunn Þóra Árnadóttir. Í því eru lagðar til breytingar á ákvæðum 180. gr. og 233. gr. a almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Lagt er til að refsivert verði að mismuna einstaklingum á grundvelli kyntjáningar eða kyneinkenna í atvinnurekstri og þjónustustarfsemi, auk þess sem kyntjáningu og kyneinkennum er bætt við upptalningu í 233. gr. a sem fjallar um ólögmæta tjáningu í garð þeirra hópa sem þar eru taldir upp. Markmiðið með lagasetningunni er að veita intersex fólki aukna vernd sem viðkvæmum samfélagshópi gegn hatursorðræðu og glæpum.

Skilgreiningin á intersex er að einstaklingur fæðist með ódæmigerð líffræðileg kyneinkenni. Líkamlegur munur er á litningum, erfðafræðilegri framsetningu, hormónastarfsemi, kynfærum, svo sem eistum, getnaðarlim, kvensköpum, sníp og eggjastokkum. Frávik kemur venjulega fram í ytri eða innri kynfærum. Meðfædd kyneinkenni virðast vera bæði karl- og kvenkyns, ekki algjörlega karl- eða kvenkyns eða hvorki karl- né kvenkyns. Intersex getur einnig sést á meðfæddum líkamlegum mun á ytri kyneinkennum, t.d. vöðvamassa, dreifingu á líkamshárum, brjóstvexti og líkamshæð.

Í 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands segir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Fleiri útfærslur á jafnræðisreglunni eða reglur um bann við mismunun er jafnframt að finna í íslenskum lögum og reglum. Í 11. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða sem byggð eru á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum. Þá eru í lögum ýmis ákvæði um bann við mismunun, svo sem 2. mgr. 1. gr. laga um réttindi sjúklinga og 3. mgr. 24. gr. laga um grunnskóla.

Þá taka lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla til mismununar á grundvelli kynferðis. Grundvallarreglan um jafnræði er einnig útfærð í mörgum alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að.

Í almennum jafnræðisreglum í íslenskum rétti er jafnan vísað til „stöðu að öðru leyti“ eða „annarra sambærilegra ástæðna“ á eftir upptalningu á mismununarástæðum í dæmaskyni. Þannig geta reglurnar gilt um hvers konar mismunun en hins vegar getur gildissvið þeirra verið takmarkað við tiltekin réttarsvið. Ákvæði sem tengjast banni við mismunun og jafnréttislöggjöf er einnig að finna í almennum hegningarlögum, þ.e. 180. gr. og 233. gr. a. Í 1. mgr. 180. gr. er mælt fyrir um að það sé refsivert í atvinnurekstri eða þjónustustarfsemi að neita manni um vörur eða þjónustu til jafns við aðra á grundvelli þjóðernis hans, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar. Jafnframt segir í 2. mgr. sömu greinar að það sé refsivert að neita manni um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi.

Samkvæmt 233. gr. a er refsivert að hæðast opinberlega að, rógbera, smána eða ógna manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiða slíkt út.

Í 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar segir að allir séu frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. kemur fram að hver maður eigi rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Þá segir í 3. mgr. að tjáningarfrelsinu verði ekki settar skorður nema með lögum og verði slíkar skorður að vera í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Ákvæði um vernd tjáningarfrelsisins er jafnframt að finna í 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Telja verður að breytingin sem frumvarpið felur í sér að því er varðar upptalningu þeirra hópa sem eiga að njóta verndar samkvæmt 233. gr. a almennra hegningarlaga samrýmist 73. gr. stjórnarskrárinnar sem og 10. gr. mannréttindasáttmálans enda er frumvarpinu ætlað að stuðla að aukinni réttarvernd intersex einstaklinga þannig að þeir fái, til jafns við aðra, notið þeirra mannréttinda sem m.a. eru tryggð í 73. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar auk 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Þegar breytingar voru gerðar á almennum hegningarlögum árið 2014 voru gerðar breytingar á þeim greinum sem lagðar eru til breytingar á í dag. Þannig varð það refsivert samkvæmt 1. mgr. 180. gr. að mismuna einstaklingum á grundvelli kynvitundar í atvinnurekstri og þjónustustarfsemi, auk þess sem kynvitund var bætt við upptalningu 233. gr. a sem fjallar um ólögmæta tjáningu í garð þeirra hópa sem þar eru taldir upp. Nauðsynlegt er að breyta á ný ákvæðum þessara greina með hliðsjón af stöðu intersex fólks, en intersex vísar ekki til fjölbreytileika í kynvitund heldur er það hugtak yfir meðfæddan breytileika á líffræðilegum kyneinkennum.

Verði frumvarpið samþykkt er intersex fólki veitt aukin vernd og í því felst skýr yfirlýsing um að það njóti verndar á við aðra sem þurfa á sérstakri vernd að halda, m.a. gegn hatursorðræðu og glæpum.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu felst viðurkenning stjórnvalda á fjölbreytileika samfélagsins. Fyrsta skrefið í mannréttindabaráttu er að horfast í augu við að við erum ekki öll eins. Staðreyndin er sú að íslenskt samfélag er alls konar og það er okkar ábyrgðarhlutverk sem kjörinna fulltrúa að viðurkenna það og gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja sjálfsögð mannréttindi allra þegna samfélagsins. Þó að hópurinn sem um ræðir sé hvorki fjölmennur né mjög sýnilegur þýðir það ekki að sá hópur eigi ekki að njóta fyllstu réttinda í íslensku samfélagi. Intersex fólk verður því miður fyrir fordómum og enn þann dag í dag eru framin gróf mannréttindabrot á þessum hópi fólks.

Ég fagna lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru í júní í fyrra. Þar mátti finna gríðarlegar réttarbætur fyrir trans fólk og kynsegin fólk en málefni intersex fólks voru send í nefnd og liggur málið nú inni í forsætisráðuneyti. Ég skora á þingheim að taka niðurstöðum nefndarinnar fagnandi og vona að málið fái fljóta meðferð á þingi þegar nefndin skilar af sér nú í vor.

Að lokum legg ég til að máli þessu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.