150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

meðhöndlun lögreglu á fólki í geðrofi.

[15:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Undanfarna áratugi hefur lögreglan verið send út til að eiga við fólk í geðrofi. Ég þekki þessi mál af eigin raun en á sjö ára tímabili mínu sem lögreglumaður lenti ég í þeirri aðstöðu. Ég verð að viðurkenna að smiðsmenntun mín dugði skammt til að gera eitthvað í þeim málum. Það sem dugði mér langbest var að ég hafði lært í fjölda ára sjálfsvarnaríþróttir og gat þannig tekið á málunum eins og hægt var. En við vitum dæmi, mjög slæm dæmi, undanfarin ár þar sem lögreglan hefur verið kölluð út til að taka á fólki sem er þetta illa veikt og viðkomandi einstaklingar því miður orðið fyrir gífurlegum skaða. Það er auðvitað óásættanlegt, bæði fyrir lögreglu og viðkomandi veika einstaklinga, að vera í slíkum aðstæðum. Það þarf að gera eitthvað í þeim málum en það virðist ekkert vera gert. Sami hluturinn virðist endurtaka sig ár eftir ár, það er hringt og beðið um sjúkrabíl en lögreglan er send á viðkomandi einstakling sem er veikur.

Þess vegna spyr vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Eru einhver ferli í gangi hjá lögreglunni? Er verið að kortleggja þetta vandamál? Er verið að taka á þessu? Hvað er verið að gera? Eða er þetta bara eitthvað sem er svæft og ekkert er gert frá ári til árs? Það hlýtur að vera krafa um það, bæði hjá lögreglu og þessum einstaklingum, að tekið sé á þeim málum og fundin lausn og ekki sé verið að senda lögreglulið á fárveikt fólk og handtaka það á mjög grófan hátt, eins og það sé einhverjir algjörir glæpamenn, sem veldur því tjóni. Það verður að finna einhverja aðra lausn.