150. löggjafarþing — 56. fundur,  3. feb. 2020.

lýðvísindi.

419. mál
[18:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin og gott að heyra áhuga hennar og jákvæð viðhorf. Ég ræddi um ákveðna fundi sem höfðu farið fram í fyrsta skipti í fyrra um þetta málefni formlega og þeir undirstrikuðu einmitt mikilvægi þess að efla hlutverk almennings í þessu þekkingarstarfi. Þetta er þá í takt við alþjóðlega þróun og alveg greinilegt sögulega séð að við höfum góð efni hér á landi til að auka hlut lýðvísinda. Ég er sammála því að það væri gott að skipa starfshóp á vegum stjórnvalda sem hefði það hlutverk að greina stöðu lýðvísinda betur en við höfum gert hér og móta einhvers konar stefnu og sér í lagi leiðsögn. Þetta þurfa ekki að vera annað en lágmarksstarfsreglur fyrir lýðvísindi.

Ég er svo sem sammála því að það er ekki endilega komið að því að hér þurfi einhverja lagabálka en samt sem áður væri gott að samræma það hvernig samskipti leikmanna, sérfræðinga, stofnana o.s.frv. eru, og einmitt auka þátttöku fólks umfram það að safna gögnum; koma á einhvers konar aðild að vinnslu, aðild að umræðum og öðru slíku vegna þess að allt er þetta þekkingaröflun fyrir góðan hóp fólks og ýtir um leið undir það að þessi verkefni verði unnin. Þetta á að mínu mati sérstaklega við norðurslóðarannsóknir, t.d. þar sem sérhæfni íbúa á norðurslóðum, og jafnvel frumbyggjanna þar sem það á við, er mjög mikilvæg til þess að góðar rannsóknir fari yfir höfuð fram, það gerir sérstaða norðurslóða.

En sem sagt kærar þakkir fyrir þessar umræður og þessi viðbrögð sem hafa orðið af ráðherra hálfu. Þar með lýk ég máli mínu.