150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Í dag er alþjóðadagur gegn krabbameinum og Krabbameinsfélagið og Kraftur hafa af því tilefni kynnt til sögunnar vitundarvakningu sem nefnist Ég skil þig. Ætlunin er að vekja athygli á því hversu mikilvægt það er að hafa góðan stuðning þegar á þarf að halda. Það eru því miður margir í samfélaginu sem búa yfir þeirri reynslu að hafa greinst með krabbamein og geta þar af leiðandi miðlað af reynslu sinni og það sem meira er, þeir skilja hvernig það er að ganga í gegnum þá lífsreynslu að greinast með krabbamein.

Í gær fór fram í þinginu þörf umræða um það að færa á skimanir fyrir krabbameini frá Krabbameinsfélaginu inn á yfirhlaðinn Landspítala. Það er tilhögun sem fáir skilja því að það er stundum þannig að sá sem gengur í gegnum slíka reynslu, að greinast með krabbamein, er í senn sjúklingur en honum er líka uppálagt að haga lífi sínu sem mest eins og heilbrigð manneskja. Til að geta fetað slíkan stíg er mikilvægt að hafa stofnanavæðingu sem minnsta og það skilja þeir sem gengið hafa þann stíg. Ég held því fram að það sé mikið óráð að færa skimanir frá Krabbameinsfélaginu sem býr yfir því stuðningsneti sem þarf hringinn í kringum landið og sem flestir þurfa á að halda. Ég vil því biðja hæstv. heilbrigðisráðherra að endurskoða hug sinn.