150. löggjafarþing — 57. fundur,  4. feb. 2020.

almannatryggingar.

83. mál
[14:20]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Flokkur fólksins hefur gjarnan lagt fram ýmsar tillögur og breytingar, frumvörp og ályktanir sem fela í sér bætt kjör eldri borgara, öryrkja og þeirra sem hafa lægstu launin í samfélaginu. Hér er á ferðinni enn eitt réttlætismálið. Eldri borgarar hafa kallað eftir því að lífeyrissjóðstekjur þeirra og réttur þeirra í hinu svokallaða almenna frítekjumarki sé virtur meira en svo að hann sé skertur um 45% á móti almannatryggingunum. Síðan er tekinn af honum skattur. Það eru sennilega fáir, ef nokkrir, sem búa við það að vera teknir annað eins í bakaríið hvað lýtur að áunnum eignarrétti sínum og aldraðir. Þá erum við að tala um hverjir aðrir en þeir eru skertir sjálfsagt um upp undir 80%.

Það frumvarp sem hér liggur fyrir kveður á um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum. Með mér á frumvarpinu er Guðmundur Ingi Kristinsson.

1. gr. frumvarpsins orðast svo:

„4. málsl.1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Þá skal ellilífeyrisþegi hafa sérstakt frítekjumark, annars vegar 100.000 kr. vegna atvinnutekna og hins vegar 100.000 kr. vegna lífeyristekna.“

Þetta er viðbót við það sem nú er en Flokkur fólksins hefur áður lagt fram þingsályktunartillögu sem liggur nú í fanginu á hæstv. félags- og barnamálaráðherra og er ætlunin, ef ég skil rétt, að hann komi með niðurstöður sínar inn í þingið fyrir 1. mars næstkomandi. Í frumvarpinu er kveðið á um að afnema með öllu skerðingar vegna atvinnutekna aldraðra enda hafa legið fyrir gögn sem benda til þess að í stað þess að ríkissjóður yrði af tekjum við slíkar ráðstafanir myndi ríkissjóður hagnast verulega á því að gefa öldruðum kost á að vinna lengur, þeim sem treysta sér til að vinna lengur en að þessari svokölluðu löggildingu þegar við stígum yfir þann þröskuld að vera talin löggiltir eldri borgarar. Frítekjumarkið er núna 25.000 kr. sem þýðir að lífeyrissjóður eða hvaðeina annað getur fallið þar undir með því að hækka frítekjumarkið upp í 100.000 kr.

Ég ætla að vísa aðeins í greinargerðina. Þetta frumvarp var einnig lagt fram á síðasta löggjafarþingi, þá 896. mál, en hlaut ekki afgreiðslu eins og oft vill verða. Í besta falli fær maður að mæla fyrir málinu. Síðan fer það í ferli fastanefndar og þar er óskað eftir umsögnum og/eða að umsagnaraðilar komi og fylgi eftir umsögn sinni. Þetta gengur oft hratt og vel fyrir sig í fastanefndinni en einhverra hluta vegna dagar málið þar uppi. Hið viðurkennda almenna verklag á hinu háa Alþingi er að stjórnarandstöðuþingmenn eru hér kófsveittir við að semja góð mál. Kannski finnst ekki öllum þau góð en einhverjum finnst það, a.m.k. þeim sem eru að vinna að þeim. Þeir nota líka fjármagn skattborgaranna sem eru hér í formi styrkja til stjórnmálaflokka til að kaupa sér sérhæfða þjónustu, útreikninga og annað slíkt með málunum sínum til að geta stutt þau með góðum rökum og sýnt að það sé eitthvað af viti í þeim. En viti menn, einhverra hluta vegna hverfa þau oftar en ekki og þegar kemur að þessum svokölluðu hrossakaupum, eins og ég kalla það gjarnan, virðulegi forseti, áður en kemur að einhverjum frídögum þingsins, eins og fyrir jól, sumarfrí og páskafrí, virðist allt í einu eina verkfæri þessara stjórnarandstöðuþingmanna vera að reyna að semja um að fá að taka einhver mál út úr nefnd sem þegar eru tilbúin. Við búum við þingræði og ég skil ekki í skelfingu ríkisstjórnarflokkanna og meiri hlutans hér að fá málin okkar í þinglega meðferð í þingsal. Ég veit ekki betur en að þeir séu með meiri hluta hér og að það sé yfir höfuð alveg nákvæmlega sama, undantekningarlítið, ekki alveg undantekningarlaust, en nánast sama hvað við komum með — það er fellt. Allt annað er bónus og húrra fyrir því en það má sennilega telja á fingrum annarrar handar á hverju löggjafarþingi fyrir sig.

Mig langar samt til að vísa í leiðinni í ályktun sem stjórn Landssambands eldri borgara setti fram um það almenna frítekjumark sem við erum að mæla fyrir hér. Með leyfi forseta ætla ég að lesa beint upp úr ályktuninni:

„Stjórn Landssambands eldri borgara ályktar á fundi þann 26. nóvember 2019 og beinir til ríkisstjórnar Íslands að almennt frítekjumark samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga nr. 100 frá árinu 2017 um almannatryggingar hækki um 25.000 kr. á mánuði í 50.000 kr. á mánuði svo fljótt sem verða má. Jafnframt verði gerð ráðstöfun til þess að sama almenna frítekjumarkið verði hækkað úr 50.000 kr. í 75.000 kr. ekki síðar en 1. janúar 2021 og sömuleiðis verði gerð áætlun um að hækka það úr 75.000 kr. í 100.000 kr. að lágmarki 1. janúar 2022.“

Eins og þið heyrið er þetta sannarlega hófleg ályktun og sýnir lítillæti eldri borgara sem við höfum iðulega séð. Það er ekki verið að biðja um allt og gera það strax. Þau eru að reyna að stíga lítil réttlætisskref og koma til móts við stjórnvöld þannig að það sé hægt að gera eins og þau biðja.

Ég verð að viðurkenna að við í Flokki fólksins erum ekki alveg svona hófleg í okkar frumvarpi og breytingu. Okkur finnst algjört lágmark að þetta almenna frítekjumark sé 100.000 kr. og við getum ekki séð að eftir neinu sé að bíða. Það fjármagn og minnkandi skerðingar sem yrðu teknar af eldri borgurum sem þessu nemur væru um 12 milljarðar á ári. Ef við værum að tala um breytingu frá 0 væri verið að skerða eldri borgara vegna lífeyrisréttinda og þessara almennu frítekjuréttinda um 16 milljarða á ári. En þau hafa nú þegar þessar 25.000 kr. sem eru um 4 milljarðar kr. sem ríkissjóður yrði af í þessum viðbótarskerðingum. Hver þekkir ekki hvernig er skattað og skert? Það er það sem við kunnum hér. Það er verið að skerða eldri borgara um 35 milljarða á ári vegna áunninna eignarréttinda sinna í lífeyrissjóði, lögþvinguðum lífeyrissjóði. Í hann þarf að greiða hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Ég ætla ekki að hafa málið öllu lengra. Ég þarf þess ekki neitt, þetta liggur ljóst fyrir. Við í Flokki fólksins höfum verið að berjast fyrir því að afnema algjörlega skerðingar vegna atvinnutekna. Við teljum það vera lýðheilsumál fyrir aldraða. Það eru ekki það margir í þeim hópi sem hafa heilsu fram undir 200 ára svo ég ýki aðeins vegna þess að það er engu líkara en að við eigum að vera ódauðleg, finnst mér. Það er verið að koma að því hvaða það kostar ríkissjóð hræðilega mikla peninga að leyfa okkur að vinna svo lengi sem við treystum okkur til. Fæstir geta unnið fulla vinnu þegar þeir eru komnir yfir sjötugt og fæstir gera það. Sumir eldri borgarar þrá það virkilega félagslega og alla vegana og ef þeir hafa heilsu til vildu þeir vinna 50% starf ef það væri í boði. Þau eru skert það rækilega til viðbótar við kostnað við að koma sér úr og í vinnu og annað slíkt að flestir kæmu út í mínus.

Það er lýðheilsumál að leyfa eldri borgurum að vinna lengur án þess að skerða launin. Það er hagnaður fyrir ríkissjóð, gefur betri heilsu, lengir tímann heima, lengir tímann þar til fólk þarf að leita sér annarra búsetuúrræða eins og hjúkrunarheimila eða dvalarheimila. Það lengir líf okkar í heilbrigði eins og kostur er.

Þetta er hið sérstaka frítekjumark sem ég var að tala um sem lýtur að atvinnutekjum aldraðra en svo er hið almenna frítekjumark sem við óskum eftir að hækki úr 25.000 kr. í 100.000 kr. Allt sem Flokkur fólksins leggur hér fram lýtur að því að reyna að koma t.d. lágmarksframfærslu upp í 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust fyrir þá sem hafa ekkert annað, engan lífeyrissjóð, ekki neitt að byggja á nema framfærslu Tryggingastofnunar ríkisins, hugsið ykkur, einstaklinga sem eru kannski fársjúkir, hafa slasast og hafa ekkert val. En, nei, þeir fá rétt ríflega 200.000 kr. útborgað með strípaðri framfærslu Tryggingastofnunar.

Hvað sagði þingheimur við því að fátækasta fólkið fengi 300.000 kr. skatta- og skerðingarlaust? Skemmst er frá því að segja að það var fellt fyrir jólin. Af öllum flokkum Alþingis var það ýmist fellt eða þeir tóku ekki þátt í atkvæðagreiðslu sem felur í sér að mínu mati að menn kæra sig ekkert um þetta, þetta sé ekki þeirra mál og þeim sé nákvæmlega sama. Það voru einungis Flokkur fólksins, Píratar og Samfylkingin sem börðust fyrir því hér fyrir jólin, Samfylkingin og Píratar með okkur, að reyna að koma lágmarksframfærslu skatta- og skerðingarlaust upp í 300.000 kr.

Nú sjáum við hvað er að gerast á vinnumarkaðnum, virðulegi forseti. Hvað er að gerast í borginni þar sem menn berjast fyrir kúgaðar kvennastéttir sem skúra, skrúbba og bóna, hugsa um börnin okkar og sjá um aðhlynningu á sjúkrastofnunum og öðrum slíkum? Við sjáum hversu mikils virði þær eru metnar. Við sjáum hversu mikils virði unga konan er metin sem var grein um í blaðinu um daginn sem fær útborgað 240.000 kr. eftir 100% vinnu, mest 260.000 kr. ef hún er heppin og hefur fengið yfirvinnu, sú sem átti litla telpu og leigði 40 m² íbúð á 150.000 kr. á mánuði.

Við sjáum hvernig staðan er en það er margt sem við getum gert betur ef við viljum gera betur. Við getum gert betur, við getum gert margt betur en að lækka veiðigjöldin og lækka bankaskattinn. Við getum gert betur en að færa þar 11,3–12,5 milljarða kr. til þeirra sem hafa ekkert með þá að gera til þeirra sem á þurfa að halda.

Þetta mál sem við erum að mæla fyrir hér, að hækka hið almenna frítekjumark upp í 100.000 kr., er bara sanngirnis- og réttlætismál og mér þætti algjörlega sjálfsagt að því yrði tekið fagnandi.

Að þessu sögðu er ég að hugsa um að láta þetta nægja í bili.