150. löggjafarþing — 58. fundur,  6. feb. 2020.

Norrænt samstarf 2019.

557. mál
[12:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls á undan mér í þessari umræðu og tek undir með þeim um mikilvægi norræns samstarfs. Vissulega erum við öll þeirrar gerðar að okkur finnst oft mikilvægt það sem við sjálf erum að fást við og ég er viss um að í öllum umræðum um allt alþjóðastarf hér í dag mun sú skoðun koma fram að okkur finnist þetta með því mikilvægara sem við gerum. Það er ekkert óeðlilegt því að alþjóðasamstarf er gríðarlega mikilvægt. Ég ætla að leyfa mér að segja að í því alþjóðasamstarfi sem við Íslendingar tökum þátt í, þá sérstaklega í gegnum Alþingi, finnst mér fátt mikilvægara en að vera í þessu góða samstarfi við okkar nánustu nágranna, bæði í gegnum Norðurlandaráð og einnig í gegnum Vestnorræna ráðið. Ég hygg að við munum ræða það hér á eftir.

Stundum finnst mér örla á því í umræðunni að eitthvað fínna þyki að horfa lengra út í heim þegar kemur að alþjóðasamstarfi. Staðreyndin er sú að við berum okkur saman við helstu nágrannalönd okkar, Norðurlöndin. Við heyrum á þingi sennilega sjaldnar talað um nokkurt svæði í heiminum en einmitt Norðurlöndin, hvort sem við erum að gagnrýna stefnu stjórnvalda hér, dásama stefnu stjórnvalda, segja hvert við viljum fara eða hvað við höfum gert vel. Alltaf lítum við til Norðurlandanna til samanburðar. Við viljum ná að koma íslensku samfélagi meira í takt við það góða sem þar er að finna. Að sjálfsögðu eru þetta engin sæluríki þar sem allt er stórkostlegt en samstarfið í Norðurlandaráði gefur okkur færi á að læra af því sem hefur verið gert hjá þessum nágrannaþjóðum okkar. Það verður að segjast eins og er að á mörgum sviðum hafa þær þjóðir verið aðeins á undan okkur.

Þá ætla ég að draga fram, forseti, það sem mér finnst einnig svo merkilegt við Norðurlandasamstarfið í gegnum Norðurlandaráð og það er sú staðreynd hve ólík staða ríkjanna er í öðru alþjóðlegu samstarfi. Sum Norðurlöndin eru í Atlantshafsbandalaginu, önnur ekki, sum þeirra eru í Evrópusambandinu og önnur ekki svo dæmi séu tekin. Þetta hefur hins vegar engin áhrif á það góða samstarf sem á sér stað innan Norðurlandaráðs. Hér hafa þeir hv. þingmenn sem töluðu á undan mér farið ágætlega yfir það og ef við ætluðum að ræða efnislega um það sem við höfum verið að gera innan Norðurlandaráðsins dygði okkur ekki þessi dagur, sennilega ekki vikan og gott ef við gætum ekki bara séð Alþingi Íslendinga fyrir umræðuefni heilan þingvetur með öllu því sem þar fer fram.

Það er hárrétt sem hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson kom inn á, ábyrgð okkar sem tökum þátt í slíku alþjóðasamstarfi er sú að taka það góða sem við lærum og komum að á vettvangi alþjóðasamstarfsins og færa hingað inn. Um það eigum við mýmörg dæmi, hvort sem það hefur komið inn í fyrirspurnir, lagafrumvörp, þingsályktunartillögur eða annað. Ábyrgðin er samt okkar því að til þess erum við í þessu starfi, bæði til að hafa góð áhrif en einnig til að fræðast og læra.

Ég ætla að leyfa mér að ræða örlítið um Norðurlöndin og stöðu tungumálanna. Það hefur verið töluverð áhersla á það að fulltrúar frá hverju Norðurlandanna fyrir sig geti tjáð sig á eigin tungumáli sem er eðlilegt þegar við eigum í djúpum pólitískum samræðum en ég ætla líka og ekki síður að draga fram mikilvægi þess að við lærum Norðurlandamál. Breyting hefur orðið á í menntakerfinu á síðustu árum eða jafnvel áratugum, ég þori ekki að setja á það nákvæmari tímasetningu af því að ég þekki það ekki nógu vel, forseti, í þá átt að æ færri virðast tileinka sér eitthvert tungumál Norðurlandanna. Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um það hvað enskan er alltumlykjandi í menningu, bæði hér og um allan heim. Hún er orðin hið nýja „lingua franca“, afsakaðu slettuna, forseti. Það þýðir ekki að við eigum ekki að tileinka okkur fleiri tungumál, sem við svo sannarlega gerum, en ég held að við þurfum að halda Norðurlandamálunum æ betur á lofti. Það að geta tjáð sig á einhverju af hinum skandinavísku málum opnar einfaldlega fyrir okkur stóran heim sem er alveg við hliðina á okkur. Það má ekki gerast að við búum við hliðina á spennandi nágrönnum sem við getum ekki talað við af því að við skiljum ekki tungumál hvert annars en tölum á því tungumáli sem kannski þykir að einhverju leyti flottara. Þess vegna legg ég áherslu á að efla menntun í tungumálakennslu þegar kemur að Norðurlandamálunum. Einnig er mjög mikilvægt að standa vörð um það samstarf sem hefur verið á sviði Norðurlandaráðs þegar kemur að ungu fólki, þegar kemur að því í gegnum tækifæri til menntunar og í samstarfi þar á milli eða vinnu. Nordjobb er þekkt dæmi um það. Einhver okkar hér inni hafa kannski farið til vinnu á vegum þeirra fínu samtaka en því miður hefur að einhverju leyti dregið úr ásókn í það. Ég velti því upp ábyrgðarlaust eins og ansi mörgu sem ég segi, forseti, hvort það geti verið að minnkandi áhersla á Norðurlöndin í skólakerfinu hafi eitthvað með það að gera og vilja okkar til að læra tungumálin.

Annars fór hv. þm. Oddný G. Harðardóttir mjög vel yfir þá skýrslu sem hér liggur til grundvallar þó að hún sé það ítarleg að vitaskuld hafi hv. þingmaður ekki getað tæpt á öllu. Ísland gegnir þar nú formennsku og formennskuáætlunin hefur verið kynnt. Þar er komið inn á mjög mikilvæga þætti. Mig langar að nefna sérstaklega einn og því veldur ekki einungis sjálfhverfa mín, forseti, þar sem ég er talsmaður í því þema, heldur það að mér þykir það alveg sérstaklega mikilvægt nú um stundir. Það lýtur að upplýsingaóreiðu og falsfréttum. Það er eitt af þeim málefnum sem verið er að taka á og reyna að berjast gegn um allan heim, leyfi ég mér aftur að fullyrða án ábyrgðar. Hvar sem við komum í alþjóðastarfi og hvar sem við fylgjumst með er alls staðar reynt að standa vörð um það að réttum upplýsingum sé komið á framfæri og barist gegn flæði falsfrétta. Við sjáum fjölda ráðstefna og funda um þetta mál á Íslandi, eitt málþing bara á morgun, fyrst það er í kollinum á mér, á vegum Vísindavefs Háskóla Íslands, svo dæmi sé tekið.

Þetta vildi ég sagt hafa um þessi mál. Ég gæti talað töluvert lengur um þau en ég hvet alla hv. þingmenn sem sitja á Alþingi til að nýta sér það að Ísland er nú með formennsku í Norðurlandaráði og að þingið verður því hér í haust. Starfið verður kannski sýnilegra á Íslandi þetta árið en mörg önnur og ég hvet alla hv. þingmenn til að taka þátt í því eins og kostur er.