150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Hv. þm. Guðjón Brjánsson kom hér í upphafsræðu þessa dagskrárliðar inn á störf án staðsetningar og störf vítt og breitt um landið. Það er ástæða til að taka undir það með hv. þingmanni að þeim störfum fer auðvitað fjölgandi sem hægt er að sinna í þágu opinberra aðila og reyndar annarra líka án þess að menn séu bundnir við tiltekinn stað, höfuðborgarsvæðið eða aðra staði. Það er því auðvitað mikilvægt að opinberir aðilar, ráðuneyti og þær stofnanir sem undir þau heyra, séu meðvitaðir um möguleika á þessu sviði og nýti sér það með það að markmiði að fleiri geti nýtt sér þann sveigjanleika og þá kosti sem fylgja því að sinna störfum óháð staðsetningu. Það má auðvitað líka orða það með þeim hætti, miðað við þann raunveruleika sem við þekkjum, að hægt sé að sinna fleiri störfum í þágu opinberra aðila, opinberra stofnana, frá öðrum stöðum en Reykjavík.

Nú rakti hv. þingmaður ýmislegt sem sett hefur verið á dagskrá af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum efnum en hann gat þess hins vegar ekki að nú í janúar greindi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá því að hann hefði sett af stað verkefni ásamt sínum undirstofnunum til að hrinda í framkvæmd þeim markmiðum að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Ráðherra setti fram áætlun sem er bæði tölusett og fjármögnuð um það hvernig þetta verði best gert á næstu þremur árum og ber að fagna því. (Forseti hringir.) Auðvitað er ráðherrann ekki endilega að leggja til fjölgun opinberra starfsmanna heldur að þessar stofnanir nýti sér möguleika til að ráða (Forseti hringir.) starfsmenn sem eru staðsettir annars staðar en í Reykjavík.