150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt að það skemmtilegasta við þingstarfið er að fara í kjördæmavikur, og þetta var sú seinni á þessu þingi. Sú fyrri er í október og sú síðari ævinlega í febrúar. Við Vinstri græn höfðum þann háttinn á að við skiptum liði og fórum austur- og vesturleið eins og við kölluðum það. Það var ótrúlega ánægjulegt, fyrir mig a.m.k. sem þingmann Norðausturkjördæmis, að byrja á Suðurlandi og fara suður fyrir og enda á Höfn og koma þá í mitt kjördæmi þegar við komum svo á Djúpavog. Við fengum alls staðar mjög jákvæðar móttökur. Með í för voru heilbrigðisráðherra og umhverfisráðherra og mér þótti afar notalegt að finna þá góðu strauma sem lagði frá fólki sem við heimsóttum, hvort heldur það var í fyrirtækjum, stofnunum eða á almennum opnum fundum.

Stóru línurnar voru eins og ævinlega samgöngumál. Við þekkjum það að forsendan fyrir því að byggja upp aðra þjónustu er að samgöngur séu í lagi. Við vorum minnt á það fyrir austan t.d. að samþykktir SSA um samgöngumál eiga að gilda en ekki eitthvað sem einstakt sveitarfélag leggur áherslu á. Við heimsóttum snjóflóðavarnargarðana í Neskaupstað og sáum þau gríðarlegu mannvirki sem þar eru. Við fórum í risastórt byggingarfyrirtæki á Selfossi þar sem mér fannst afar áhugavert að sjá hversu mikil áhersla var á gæðavottun, á mannauðsmál. Þar hittum við fólk sem hafði starfað þar frá því að það kláraði að læra og er búið að starfa í 30 ár, lítil starfsmannavelta. Það var margt sem við höfðum gaman af en líka sem við fengum nánari upplýsingar um.

Ég verð að segja í lokin, virðulegur forseti, að varðandi miðhálendisþjóðgarð, af því að undirtektir hafa verið mismunandi, að við fengum afskaplega góðar undirtektir þar, sérstaklega á Vatnajökulsþjóðgarðssvæðinu, enda þekkja þeir hvað málið snýst um.