150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Í Reykjavík eru skráð 179 börn á grunnskólaaldri sem borgaryfirvöld vita ekki hvar stunda nám. Þetta kom fram í minnisblaði sem afgreitt var hjá skóla- og frístundaráði á fundi fyrir helgi. Borgin hyggst skoða þetta nánar í samstarfi við ráðuneytið og væntanlega og vonandi koma að mestu fram eðlilegar skýringar á þessu. Hér birtist eflaust að hluta til hægagangur í kerfinu, þ.e. tafir sem kunna að vera á lögheimilisskráningu, sérstaklega hjá fólki sem flytur oft á milli hverfa, t.d. vegna þess að það býr við ótryggt húsnæði á leigumarkaði.

En það sem þessar tölur frá borginni sýna er hins vegar nokkurt áhyggjuefni. Kerfið okkar virðist bjóða upp á smugur fyrir börn til að fara á mis við skólagöngu án þess að það komi endilega í ljós. Hér þarf að staldra við og sjá til þess að samfélagið standi undir þeirri grunnskyldu að tryggja reglulega skólasókn barna. 179 börn sem fara á mis við skólagöngu er 179 börnum of mikið. Þegar búið er að sigta frá þau tilvik sem eiga sér eðlilegar skýringar eins og vegna tafa á skráningu lögheimilis, hversu mörg börn eru eftir og af hvaða ástæðu? Skyldu einhver þeirra glíma við langvinn veikindi og því ekki geta sótt sér reglulega menntun? Ætli einhver þeirra séu erfiðir nemendur sem kerfið hefur gefist upp á að halda í skóla? Hversu mörg hverfa mögulega úr menntakerfinu vegna ákvarðana foreldra og af hvaða ástæðum skyldu foreldrar kjósa að taka börn sín úr almennum grunnskólum? Svo eru það börnin sem vegna ýmissa ástæðna og aðstæðna ákveða einfaldlega að mæta ekki í skólann, svo sem vegna mótþróa eða uppgjörs við foreldra og kerfið, sér í lagi á unglingsárunum.

Ég sé hér menntamálaráðherra í salnum. Ég vona að ráðuneytið taki vel í þá beiðni Reykjavíkurborgar að skoða þessi mikilvægu mál ofan í kjölinn.