150. löggjafarþing — 61. fundur,  20. feb. 2020.

sala upprunavottorða.

[10:33]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég býst við að mér sé farið eins og mörgum öðrum að ég er ákaflega hugsi eftir að ég sá Kveik í fyrrakvöld. Maður hefur svo sem gert sér grein fyrir því, og það hefur ekkert farið leynt, að við erum ekki bara með alls konar losunarheimildir og annað slíkt heldur erum við einmitt að selja þessi upprunavottorð. Ég gerði mér hins vegar ekki grein fyrir því að umfangið væri slíkt sem fram kom í þættinum og hvernig það lítur út í alþjóðasamfélaginu að við skulum í raun bæði vera að geyma kökuna fyrir okkur, og segjast vera ótrúlega mikið græn, en síðan vera að selja hana frá okkur og taka í staðinn til okkar jarðvarmaeldsneyti og kjarnorku.

Mig langar einfaldlega til að spyrja hæstv. ráðherra hvort eitthvað af þessu hafi komið henni á óvart eða hvort hún hafi verið algerlega meðvituð um hvernig staðan væri. 900 millj. kr. voru teknar inn í sölu á þessum upprunavottunum til Landsvirkjunar á síðastliðnu ári. Og ef svo er ekki spyr ég hvort ráðherra sé sátt við þetta eins og það er, hvort hún og hennar ráðuneyti sé að skoða þetta eitthvað frekar og hyggist bregðast við. Við höfum verið að auglýsa þá sérstöðu okkar að vera græn en það er ekki nóg að segja að staðreyndin sé sú að við séum græn þegar pappírar segja allt annað.