150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

viðbrögð við kórónuveirunni.

[15:12]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn um þetta mál sem hún beinir til mín sem formanns þjóðaröryggisráðs. Málið hefur verið tekið fyrir á vettvangi þjóðaröryggisráðs á upplýsingafundi sem var haldinn með sóttvarnalækni og fulltrúum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Þá hefur hæstv. heilbrigðisráðherra haldið ríkisstjórn upplýstri um stöðu mála og það er fylgst mjög grannt með málum. Nú þegar hefur verið lagt í framkvæmdir til að hægt sé að tryggja aðskilda móttöku sjúklinga á Landspítalanum þannig að það sé sérstakur inngangur fyrir þá sem hugsanlega gætu greinst með þessa veiru og þeir fari ekki í gegnum hinn almenna inngang í bráðamóttökunni, þannig að strax var gripið til þess. Síðan hefur verið unnið að því að skerpa viðbúnað innan lands og safna upplýsingum um allt sem allar heilbrigðisstofnanir eru að gera. Sömuleiðis eru áframhaldandi aðgerðir á alþjóðaflugvöllum og alþjóðahöfnum. Það er mjög mikil upplýsingamiðlun til farþega sem koma til landsins. Það er líka mikil upplýsingagjöf til almennings og atvinnulífs. Það er unnið að aðstöðu fyrir einangrun eða sóttkví einstaklinga sem ekki búa hér á landi, til að það sé tryggt. Heilbrigðisstofnanir og viðbragðsaðilar hafa verið að vinna og fara yfir sínar viðbragðsáætlanir, fara yfir aðstöðu, hlífðar- og tækjabúnað þannig að það má segja að allir viðbragðsaðilar séu á tánum.

Sóttvarnalæknir hefur ekki bara átt fundi með ráðherrum og þjóðaröryggisráði heldur líka sóttvarnaráði sem styður það áhættumat sem þar liggur fyrir og þær aðgerðir sem eru í gangi. En það er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður bendir á, að smit sem nú hefur greinst á Norður-Ítalíu hefur kallað á miklar aðgerðir stjórnvalda þar í landi. Það verður tekið til umræðu á vettvangi Evrópuríkja. Evrópuríki hafa fylgst að í sínu mati á stöðu útbreiðslunnar, t.d. hvað varðar landamæravörslu og annað, þannig að það verður tekið til umræðu, veit ég, á þeim vettvangi.