150. löggjafarþing — 62. fundur,  24. feb. 2020.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[16:44]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að lýsa yfir stuðningi við þetta frumvarp. Ég tel það að flestu leyti vera mjög til bóta og bæta upp það kerfi hvers ágallar hafa endurtekið ratað inn á borð þessa þings vegna ósveigjanlegra reglna um t.d. einmitt það sem hv. þingmaður á undan mér minntist á, að sanna á sér deili. Í alþjóðlegum rétti, svo að ég upplýsi hv. þm. Karl Gauta Hjaltason, eiga flóttamenn hins vegar ekki að þurfa að leita til þeirra ríkja sem þeir eru að flýja frá til að fá skilríki og sakavottorð. Það er mjög skýrt í þjóðarétti þannig að með því að gera skýlausa kröfu um það, eins og er í núgildandi lögum, að viðkomandi sanni á sér deili eftir þessari leið erum við að biðja viðkomandi líka um að brjóta þjóðarétt. Við erum líka að brjóta þjóðarétt á sama tíma. Það er því til bóta að við séum að laga þá reglu þótt ég hefði kannski viljað laga hana með öðrum hætti en hér er gert. (Forseti hringir.)

Mig langar líka að minnast á að mér finnst algjör óþarfi að skerða réttindi fólks, eins og er verið að gera með þessu frumvarpi, að lengja tímann sem það tekur þá sem giftast íslenskum ríkisborgara (Forseti hringir.) að fá íslenskan ríkisborgararétt úr þremur árum í fjögur. Mér finnst það algjör óþarfi.