150. löggjafarþing — 64. fundur,  25. feb. 2020.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

311. mál
[16:53]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur fram í lögunum frá 2010 um þjóðaratkvæðagreiðslur sem ég vitnaði í áðan að þær séu ráðgefandi þannig að ég reikna með að þær séu ráðgefandi og að það sé löggjafinn, við sem hér stöndum eða forverar okkar, sem samþykkti þetta 2010. Þetta er ráðgefandi þannig að þeirri spurningu sé svarað. Ef við breytum ekki lögunum um þjóðaratkvæðagreiðslur verða þau svona. Ég veit ekki hvernig breytingartillaga myndi takast á við það en þetta eru lögin sem við eigum við.

Hvað gerist? Um áratugaskeið hafa í stórum skoðanakönnunum 60–80% þjóðarinnar viljað hafa flugvöllinn í Vatnsmýrinni, í fjölda skoðanakannana í sögulegu samhengi yfir langan tíma. Það finnst mér sýna svolítið hug þjóðarinnar. Það getur vel verið að það þurfi að koma frekar í gegnum svona þjóðaratkvæðagreiðslu og að það myndi virka á viðkomandi sem taka þær ákvarðanir sem koma að þessum málum en ég vek athygli á því, eins og kemur fram í greinargerðinni, að þegar málið var lagt fram í fyrra kom 21 umsögn og þar af frá fjölda sveitarfélaga. Bara umsögn Reykjavíkur var á móti tillögunni af þeim umsögnum sem komu fram.

Það sem ég kalla eftir almennt í samfélaginu, hvort sem það er þetta mál með Reykjavíkurflugvöll, raforkukerfin, samgönguinnviðina okkar eða fjarskiptin, er að þetta snýr að þjóðaröryggishagsmunum og þá geta ekki einstök sveitarfélög ákveðið að fara gegn málinu.

Gott dæmi í Svíþjóð er Bromma-flugvöllur sem Stokkhólmsborg ætlaði að loka en vegna öryggishagsmuna Svíþjóðar í gegnum „riksintresse“ (Forseti hringir.) stoppuðu sænsk stjórnvöld það mál. Ég nefni þetta sem dæmi.