150. löggjafarþing — 65. fundur,  3. mars 2020.

svör við fyrirspurnum.

[14:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Mig langar að gefa forseta Alþingis tækifæri til að útskýra hvað það er sem ég fór rangt með í máli mínu. Ég nefndi að efling Alþingis og gagnsærri stjórnsýsla væri í stjórnarsáttmálanum. Ég nefndi það að við séum í krafti fyrirspurna, skýrslubeiðna o.s.frv. að sinna stjórnarskrárbundnu eftirlitshlutverki okkar gagnvart framkvæmdarvaldinu og ég nefndi það að ég heyri forseta — þetta er klippt saman í myndskeiði — aðeins nefna sem einhvers konar lausn á því vandamáli að svörin komi of seint að lengja þá fresti í samræmi við raunveruleikann.

Er þetta ekki allt rétt sem ég nefndi?