150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:33]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mjög svo þörfu umræðu að mínu mati. Ég gæti margt um þetta sagt en ætla að reyna að einbeita mér að nokkrum hlutum. Ég tek undir þau orð hæstv. forsætisráðherra sem hún sagði í upphafi ræðu sinnar, að við værum öll almannavarnir. Það er raunverulega stór sannleikur í þeim orðum. Það er svolítið á könnu hvers og eins að gæta sín sjálfur og taka einhverja ábyrgð.

Síðan erum við með stjórnkerfið og við erum með Almannavarnir. Fyrir rúmlega tíu árum var þessu kerfi breytt í núverandi kerfi, þ.e. sem málshefjandi er að stinga upp á að verði núna sjálfstæð stofnun. Hún var það áður en það þótti afskaplega bagalegt og höfðu margir horn í síðu þess kerfis sem þá var. Nú er umræðan að snúa til baka. Ég er tilbúinn að taka þá umræðu og ég fagna henni. Ég er alls ekki á móti því að ræða þessi mál en tel samt sem áður mjög mikilvægt í fyrsta lagi að ríkislögreglustjóri hafi hér mikla aðkomu vegna þess að almannavarnir eru þess eðlis að öll viðbrögð kerfisins við vánni verða að vera markviss, örugg og fumlaus, jafnvel á skömmum tíma, og þar er enginn betur í stakk búinn en einmitt lögreglan að stjórna slíkum aðgerðum. Ég er fyrir það fyrsta efins um að færa þetta undir sérstaka stofnun og í öðru lagi er ég mjög efins um að færa þetta undir annað ráðuneyti eins og málshefjandi (Forseti hringir.) stingur upp á, að færa almannavarnir í forsætisráðuneytið.