150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

Almannavarnir.

[16:35]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mikilvæga samfélagsverkefni á dagskrá og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að taka þátt í umræðunni. Hugtakið almannavarnir á sér fastan sess í hugum okkar flestra og kallar fram einhverjar tengingar, líklega flestar alvarlegar, um öryggi, öryggisógn, festu, skjól og kannski raunar traust. Fremstu síðurnar í gömlu símaskránni eru enn í fersku minni þar sem finna mátti nákvæmar leiðbeiningar um viðbrögð við hættuástandi, einnig þegar almannavarnaflauturnar glumdu reglulega samkvæmt landsplani til að vara við og æfa landsmenn ef bregðast þyrfti við styrjaldarástandi.

Almannavarnir ríkisins voru stofnaðar með lögum 1962. Í upphafi var meginhlutverkið að tryggja öryggi borgaranna, verja þá tjóni af völdum hernaðaraðgerða kannski fyrst og fremst, enda Kúbudeilan á þeim árum í algleymingi. Með nýju lögunum 1967 urðu breytingar á hlutverki almannavarna. Nú er líka litið til náttúruhamfara, náttúruvár og annarra umhverfisþátta. Farið var að huga að neyðarskipulagi í sveitarfélögum fljótlega eftir það, fyrst á Húsavík og síðan á Ísafirði sama ár, 1972. Heilbrigðisþjónustan var líka orðin hluti af þessu viðbúnaðarkerfi.

Virðulegur forseti. Það hefur sannarlega reynt á almannavarnir og neyðarskipulagið í áranna rás við náttúruhamfarir, eldgos og snjóflóð og nú þessa dagana þegar veiran Covid fer mikinn. Sveitarfélögin hafa í seinni tíð sameinast um nefndir. Nú er 21 nefnd líklega starfandi í níu umdæmum landsins en sveitarfélögin eru mun fleiri. Nýjustu lögin eru frá 2008 og mikil þróun hefur verið í starfi almannavarna. Samstarf hefur aukist við fjölmargar stofnanir og fyrirtæki og þau eru að styrkja sig. Almannavarnakerfið er stöðugt að styrkja sig. Ekki má gleyma björgunarsveitunum og ég spyr hæstv. ráðherra hvort þeirra hlutverk sé nægilega vel metið og skilgreint. Rannsóknarnefnd almannavarna á að vera starfandi samkvæmt lögunum, (Forseti hringir.) sjálfstæð og óháð. Hún hefur hins vegar verið óvirk frá upphafi. Hver er ástæða þess, hæstv. forsætisráðherra? Við okkur blasa nýjar áskoranir eins og málshefjandi bendir á. (Forseti hringir.) Það er ástæða til að rýna vel þennan málaflokk, skoða hvort við erum að feta rétta slóð og spyrja hvort okkur hafi borið eitthvað af leið.

(Forseti (WÞÞ): Forseti minnir hv. þingmenn á tímamörkin.)