150. löggjafarþing — 69. fundur,  4. mars 2020.

samkeppnislög.

610. mál
[18:25]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði miklu síður viljað leggja fram frumvarp sem ekki hefði farið í samráðsgátt og fengið allar þessar umsagnir. Ég las þær allar og tók afstöðu til þeirra. Ég vildi fá þau sjónarmið fram og ég vildi vita hvort þar fyndist eitthvað sem ég hefði ekki hugsað út í eða við í ráðuneytinu. Auðvitað er frumvarpið pólitískt plagg eins og önnur frumvörp sem hér eru lögð fram og ég er mjög meðvituð um að margir eru á annarri skoðun um þær breytingar sem lagðar eru fram. Það er hluti af málinu og hluti af eðli máls en samráðsgátt er í eðli sínu til bóta. Mér finnst hún skipta máli og í mörgum öðrum frumvörpum og í vinnu almennt er tekið tillit til þeirra athugasemda sem þar koma fram. Oft taka frumvörp breytingum áður en þau koma inn í þingið, en síðan fá þau sína þinglegu meðferð og taka frekari breytingum þar.