150. löggjafarþing — 70. fundur,  5. mars 2020.

afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

397. mál
[19:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara að metast við hv. þingmann um það hvort málið kom fram áður en bendi á þá augljósu staðreynd að frumvarp okkar Miðflokksmanna kom fram á tveimur þingum en var ekki afgreitt fyrr en núna fyrir jól. Ég segi aftur: Hugur okkar Miðflokksfólks stóð til þess í haust að treysta hæstv. fjármálaráðherra þegar frumvarpinu var til hans vísað, treysta honum til þess að koma fram með frumvarp sama efnis innan tilsetts tíma, eins og gert var ráð fyrir. Ég er náttúrlega ekki í stjórnarsamstarfi við hæstv. fjármálaráðherra en það er hv. þingmaður aftur á móti og ef hún hefur ástæðu til að efast um hans góða tilgang þá skil ég kannski framkomu þessa máls. En eins og ég segi, ég hef bara tröllatrú á hæstv. fjármálaráðherra og við Miðflokksfólkið og trúum því og treystum að hann muni á sínum tíma í haust koma fram með mál þannig að þar sé lagabreytingin, fyrirhugaða, fullbúin.

Þessi 73 ára tala sem við settum fram var ekki útilokunaratriði af hálfu þeirra sem lögðu málið fram. Það var alveg opið að lengri frestur yrði á því að menn gætu unnið lengur, en þá bentum við á það augljósa, hæfishlutann o.s.frv., og töldum þetta ágætt fyrsta skref og töldum að hægt væri að leggja þetta fram og gera það að lögum fljótt. Það er fullt af fólki sem bíður þarna úti, vinnufúst, sem vill halda áfram, með hausinn stútfullan af þekkingu, sem við erum að reka á eftirlaun miklu fyrr en til hafði staðið. Ég verð að segja það líka að þessu ágæta máli hér hefði betur fylgt tillaga um að launatekjur rýri ekki lífeyristekjur. Þá hefði málið verið af allt öðrum kalíber og á allt öðrum stað.