150. löggjafarþing — 72. fundur,  12. mars 2020.

sveitarstjórnarlög.

648. mál
[18:22]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég átta mig engan veginn á því hvernig það getur falist í ákvörðunartöku sveitarstjórnar að ákveða það að minni hluti eða meiri hluti taki þátt í ákvörðuninni. Ég skil þetta þannig að það sé hægt að víkja frá ákvæðinu um það hvernig staðið er að ákvörðuninni, varðandi stund og stað, tíðni funda og slíkt sem er einmitt tilgreint í fundarsköpum. Það eru tengslin sem ég sé við fundarsköpin af því að þar eru nánar útfærðar ýmsar greinar sveitarstjórnarlaganna. Sveitarfélög hafa heimild til að ákveða að útfæra þær í nokkrum mæli með mismunandi hætti og þess vegna hef ég verið að vísa til þeirra samþykkta.

Ég kom eiginlega hér í annað skipti bara til þess að nefna það að ég lít þannig á að komin sé fram ósk um að nefndin fjalli um málið á milli umræðna. Ég lít á það sem sjálfsagt mál ef það má verða til þess að skýra frekar þá umræðu sem hér fer fram.