150. löggjafarþing — 74. fundur,  13. mars 2020.

staðgreiðsla opinberra gjalda og tryggingagjald.

659. mál
[14:45]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Við í Viðreisn styðjum allar aðgerðir sem gripið verður til til að létta undir með atvinnulífinu í þeirri stöðu sem nú er uppi. Ég get hins vegar ekki annað en sagt, eins og ég kom að í máli mínu líka í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra áðan þegar mælt var fyrir málinu, að ég tel að það hefði þurft að ganga lengra. Tekist var á um þetta, m.a. í umræðum í efnahags- og viðskiptanefnd. Formaður efnahags- og viðskiptanefndar kom inn á það í máli sínu að hann vildi ekki efna til einhverra pólitískra yfirboða. Þetta snýst ekkert um það. Fyrir það fyrsta er auðvitað mjög mikilvægt að ríkisstjórn sem boðar samráð stundi samráð en komi ekki með mál svo seint inn í þingið að skilaboðin séu að hér sé ekkert svigrúm til annars en að samþykkja það sem lagt er fyrir. Það er ekkert svigrúm eða tími til neinnar efnislegrar umræðu. Við megum alls ekki hrófla með neinum hætti við þessu því að þá fellur málið um sjálft sig af tímaskorti. Það eru ekki boðleg vinnubrögð í samráði og rétt að minna á að ríkisstjórnin sjálf boðaði á blaðamannafundi, sem var heldur innihaldsrýr, á þriðjudaginn var aðgerðir einmitt í þá veru að veita gjaldfresti. Það var nægur tími til að hafa fullt samráð við minni hlutann til að eiga vandað samtal um það til að tryggja að aðgerðin sem gripið er til núna, sem er sú fyrsta sem raunverulega hönd á festir, sem einhver áhrif hefur sem gripið er til, myndi duga til.

Ég minni líka á orð hæstv. fjármálaráðherra og fjölmargra sem rætt hafa hér í þessari umræðu: Tryggjum að við gerum frekar of mikið en of lítið í fyrstu lotu.

Ég hef sjálfur staðið í þeim sporum í svona kringumstæðum að reka fyrirtæki þar sem sjóðstreymið er að þorna upp hraðar en nokkurn órar fyrir, að þurfa að hafa áhyggjur af því að geta borgað laun um næstu mánaðamót, að þurfa að hafa áhyggjur af því hvernig eigi að standa skil á reikningum, hvernig eigi að standa skil á opinberum gjöldum, rimlagjöldum sem háar sektir og viðurlög eru við að greiða ekki. Þess vegna hefði ég viljað ganga lengra í þessum efnum.

Ég ætla hins vegar ekki, eða við í Viðreisn, í einhver pólitísk yfirboð hér með því að leggja fram breytingartillögu. Það er augljóst að enginn vilji var til þess af hálfu meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að ræða einhverjar mögulegar aðrar útfærslur á þessu máli sem gætu komið sér betur, sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Ég segi enn og aftur: Ég sakna þess að ríkisstjórnin sýni skýrt að hún átti sig á alvarleika stöðunnar sem við erum að glíma við, að hún átti sig á hversu bráður þessi vandi er. Þetta eru fyrirtæki úti um allt atvinnulíf, lítil og meðalstór fyrirtæki sér í lagi, sem eru einfaldlega í lífróðri þessa dagana. Þau eru að berjast fyrir lífi sínu. Þau eru að taka ákvarðanir um það hvort þau þurfi að fara í víðtækar uppsagnir eða jafnvel gjaldþrot. Við erum þegar farin að heyra fréttir af fyrstu gjaldþrotunum.

Við þær kringumstæður eigum við hér að gera allt sem við getum til að létta undir. Þetta er bráðabirgðaráðstöfun til eins mánaðar. Ég tel að við hefðum getað sýnt meiri metnað, við hefðum getað gengið lengra og mér þykir miður að við höfum ekki notað það tækifæri því að það er stærsta tækifærið sem við höfum til að liðsinna atvinnulífinu og núna getum við sagt í það minnsta næsta hálfa mánuðinn eða mánuðina. Þess vegna kalla ég eftir því að ríkisstjórnin stundi betri vinnubrögð, komi tímanlegar með málin inn í þingið og hafi betra samráð við minni hlutann á þingi þannig að við getum einmitt með góðri samvisku staðið saman að þeim ákvörðunum sem hér eru teknar og getum sameiginlega tryggt að þær gangi nægjanlega langt.