150. löggjafarþing — 76. fundur,  17. mars 2020.

aðgerðir til aðstoðar heimilunum.

[13:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem við segjum við fólk sem spyr: Hvaða áhrif hefur þetta á mig? er fyrst og fremst þetta: Við vitum af vandanum, við höfum hafist handa og við ætlum að huga að öllum þeim þáttum sem hér eru dregnir fram. Í fyrsta lagi viljum við huga að atvinnuöryggi. Án atvinnuöryggis er gríðarlegur ótti inni á heimilunum. Við horfum sömuleiðis til fjármálamarkaðarins. Hér eru húsnæðislánin nefnd. Við munum gera kröfu til þess að fjármálastofnanir veiti svigrúm í gegnum erfiðasta tímann og við höfum þegar séð merki þess að fjármálastofnanir ætli að gera það. Til þess eru aðgerðir Seðlabankans líka hugsaðar, að auka svigrúm fjármálafyrirtækja til slíkra aðgerða. Við munum sömuleiðis horfa til þess sem nauðsynlegt kann að reynast í námslánakerfi sem vísað er til.

Varðandi verðbólguna gerum við ekki ráð fyrir að hér verði sambærilegt verðbólguskot eins og menn þekkja frá fyrri tímum. En það eru einfaldlega svo miklir óvissutímar núna að ekki er gott um það að spá. Vonandi komumst við í gegnum þetta með réttum aðgerðum þannig að neikvæð áhrif verðbólguskots birtist okkur ekki.