150. löggjafarþing — 79. fundur,  20. mars 2020.

tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví.

667. mál
[14:13]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Þetta eru góðar viðbætur við frumvarp sem leit ekki út fyrir að vera flókið en breytingarnar eru kannski flóknari. Það er frábært að bjóða laun til foreldra barna undir 13 ára aldri sem hafa fengið tilmæli um að vera í sóttkví. Ábendingar voru gefnar um að huga að foreldrum barna með skerta skólaþjónustu sem er einmitt sérstaklega erfitt fyrir einstæða foreldra, eins og framsögumaður benti á í ræðu sinni, og að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga verði sambærilegur á við réttindi launafólks er einnig mjög mikilvægt.

Af því að við erum að tala um sóttkví langar mig örstutt að nýta tækifærið og dýfa tánum aðeins í tölfræðina. Við Íslendingar erum svo rosalega sérstök með það að vinna allt út frá höfðatölutölfræði. Núna eru 409 staðfest smit og þegar maður ber það saman við Bandaríkin sem eru með þúsund sinnum fleiri íbúa en Ísland eða svo myndi það þýða um 400.000 smit í Bandaríkjunum. Það er að sjálfsögðu ekki komið því að í tölulegum upplýsingum eru staðfest smit um 255.000 í heiminum eins og hann leggur sig. Það getur verið rosalega skemmtileg leikfimi að bera saman við höfðatölu allt það sem gerist á Íslandi miðað við annars staðar í heiminum en það er líka varhugavert. Við vitum það og gerum dálítið grín að því hvernig við reiknum allt út frá höfðatölu en þegar kemur að svona dæmum kemur pínulítið niður á okkur sú áhugaverða staðreynd að Ísland vinnur allt úr frá höfðatölu. Þegar við notum hana í alvörusamanburði verður myndin pínulítið skekkt. Í þessu tilviki erum við örugglega með einna bestu og nákvæmustu tölurnar um fjölda staðfestra smita í öllum löndum. Við vinnum þessa tölfræði vel en hún er ekki góð þegar á að nota hana til að byggja á einhverja spádóma um hversu slæmt allt er eða eitthvað því um líkt. Förum varlega með þetta.