150. löggjafarþing — 81. fundur,  23. mars 2020.

aðstoð við fyrirtæki.

[10:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég sé þetta þannig að fyrirtæki eins og það sem hv. þingmaður er að lýsa hér, sem hefur tapað tekjum að verulegu leyti, jafnvel öllu leyti, er dæmi um fyrirtæki sem við erum að reyna að teygja okkur til. Slíkt fyrirtæki ætti að mínu mati að fá fyrirgreiðslu í sínum viðskiptabanka þannig að afborganir falli niður á næstunni og þeim verði einfaldlega fleytt aftast á lánið sem er til staðar. Þar fyrir utan eru brúarlánin sniðin að slíkum fyrirtækjum vegna þess að við segjum að þau eru einmitt til þess að geta staðið undir launagreiðslum, leigu, aðfangakaupum og öðru slíku.

Tíminn einn getur síðan leitt fram hvort við þurfum hreinlega að fara í að létta skuldum þar sem þær eru að safnast óeðlilega fyrir hjá fyrirtækjum sem eiga í eðlilegu árferði fyrir sér framtíð. Hversu langt á að ganga í því er ekki gott að segja akkúrat í dag og við verðum einfaldlega að halda áfram að stíga ölduna, meta þau úrræði sem við höfum þegar gripið til, hvernig þau eru að virka og hvar þurfi mögulega að ganga lengra. (Forseti hringir.) Ég tel að við séum búin að stíga mjög myndarlega inn í stöðuna þannig að menn eigi ekki að þurfa að hafa áhyggjur alveg á næstunni.