150. löggjafarþing — 82. fundur,  23. mars 2020.

aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

683. mál
[11:51]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér spyr hv. þingmaður út í mál sem er ekki í þessu frumvarpi. Hann spyr út í stöðu þeirra sem búa við einna bágust kjör í landinu, en ekki er auðséð að staða þeirra hafi tekið breytingum í einhverjum grundvallaratriðum vegna heimsfaraldursins þó að við verðum að huga að öllum í þessu samfélagi og að ekki sé hægt að útiloka að neikvæð áhrif veirunnar snerti hvern og einn Íslending. Ég tel hins vegar að það sem hv. þingmaður kemur inn á sé hluti af annarri og breiðari umræðu um almannatryggingakerfið. Ég gengst alveg við því að í þeim skrefum sem við erum núna að kynna, sem eru efnahagslegar aðgerðir vegna útbreiðslu veirunnar, var ekki farið inn í bótakerfi almannatrygginga.